BHM talar um óviðunandi hægagang

Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður Bandalags háskólamanna hvetur viðsemjendur sína til að …
Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður Bandalags háskólamanna hvetur viðsemjendur sína til að taka kjaraviðræðurnar föstum tökum. mbl.is/Hari

„Óviðunandi hægagangur er í samningaviðræðunum að mati BHM,“ segir í tilkynningu frá BHM, Bandalags háskólamanna. Kjarasamningar aðildarfélaga BHM við ríkið, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa nú verið lausir í meira en tvo mánuði.

Viðræður hafa verið í gangi hjá sáttasemjara en þeim hefur miðað of hægt áfram, að mati BHM. BHM skorar í tilkynningunni á viðsemjendur sína að taka kjaraviðræðurnar „föstum tökum og ganga til samninga við félögin.“ 

Aðildarfélög BHM hafna alfarið flatri krónutöluhækkun launa þar sem slíkt samrýmist ekki kröfum félaganna um eðlilegan fjárhagslegan ávinning háskólamenntunar og getur falið í sér kjararýrnun, segir í tilkynningunni en í viðtali við Morgunblaðið sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM að því „hafi verið komið mjög skýrt á fram­færi við samn­inga­nefnd rík­is­ins að krónu­hækk­an­ir komi ekki til greina og það hef­ur með launa­bilið í samn­ing­un­um að gera.“

Hún sagði það vera sitt mat að krónu­tölu­hækk­an­ir hafi meiri ávinn­ing fyr­ir þá lægst launuðu en þá sem eru með hærri laun. Í síðustu samn­ing­um fé­lag­anna var samið um svo­kallaða blandaða leið; bæði krónu­tölu- og pró­sentu­hækk­un.

Bandalag háskólamanna er samtök 27 fag- og stéttarfélaga háskólamenntaðs fólks með samtals tæplega fjórtán þúsund félagsmenn innan sinna raða. Félagsmenn starfa á öllum sviðum íslensks atvinnulífs, jafnt hjá ríki, sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum og einkafyrirtækjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert