„Erum himinlifandi yfir þessu“

Sveitarstjórn Árneshrepps samþykkti á fundi sínum í gær framkvæmdaleyfi fyrirtækisins …
Sveitarstjórn Árneshrepps samþykkti á fundi sínum í gær framkvæmdaleyfi fyrirtækisins fyrir fyrsta hluta virkjanaframkvæmda við Hvalárvirkjun. Mynd úr safni af vötnum á Ófeigsfjarðarheiði í Árneshreppi á Ströndum. mbl.is/Golli

„Við reynum að komast af stað jafn fljótt og við getum,“ segir Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri VesturVerks í samtali við mbl.is. Sveitarstjórn Árneshrepps samþykkti á fundi sínum í gær framkvæmdaleyfi fyrirtækisins fyrir fyrsta hluta virkjanaframkvæmda við Hvalárvirkjun.

Leyfið tekur til rann­sókn­a á jarðfræðileg­um þátt­um, vega­gerð við veg­i að og um virkj­un­ar­svæði, brú­ar­gerð yfir Hvalá, efnis­töku og efn­is­los­un, bygg­ingu frá­veitu, öfl­un neyslu­vatns og upp­setn­ing­u vinnu­búða.

„Við erum himinlifandi yfir þessu,“ segir Gunnar um að leyfið sé í höfn og kveðst gera ráð fyrir að VesturVerk hefji framkvæmdir strax í þessum mánuði. Ekki liggi hins vegar enn fyrir hve margir verði þar að störfum.

Milljónakostnaður vegna tafa

Um­sókn fyr­ir fram­kvæmda­leyf­inu var upp­haf­lega lögð fram í sept­em­ber í fyrra, en þar sem aug­lýs­ing á breyt­ing­um deili­skipu­lags vegna Hvalár­virkj­un­ar var birt í Lög­birt­ing­ar­blaðinu tveim­ur dög­um of seint þurfti hrepps­nefnd­in að taka málið fyr­ir að nýju.

Fram­kvæmda­leyf­is­um­sókn Vest­ur­Verks sem samþykkt var í gær er sú sama og felur endurbirtingin því í sér 8-9 mánaða töf sem Gunnar segir hafa kostað fyrirtækið fleiri milljónir. „Þetta er bara handvömm,“ segir hann.

Spurður hvenær hann telji líklegt að rannsóknum ljúki og í kjölfarið verði niðurstaðna að vænta varðandi leyfisveitingu fyrir virkjanagerðina sjálfa segir Gunnar VesturVerk hafa ætlað að sér að gera allar nauðsynlegar rannsóknir í sumar. Ljóst sé hins vegar að það muni ekki nást, þar sem ekki sé gert ráð fyrir að hægt verði að vinna á svæðinu mikið lengur en út september.  

„Þetta kemur svo seint, að það er komið fram á mitt sumar núna, en við munum gera allt sem við getum til að undirbúa það fyrir næsta sumar,“ segir hann og kveðst vonast til að það takist að ljúka undirbúningi í ár, þannig að hægt verði að gera rannsóknirnar næsta sumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina