Líkamsárás og vopnaburður í Vesturbænum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók þrjá menn á áttunda tímanum í gærkvöldi í Vesturbænum (póstnúmeri 107) grunaða um líkamsárás og brot á vopnalögum. Mennirnir eru vistaðir í fangageymslum lögreglunnar vegna rannsóknar á málinu.

Tilkynnt um innbrot í bílskúr í Breiðholtinu (hverfi 111) í nótt en þar hafði verið þvingaður upp gluggi og farið inn. Sá sem tilkynnti innbrotið til lögreglu kom að manninum og reyndi að stöðva för hans en maðurinn dró upp hníf og ógnaði manninum með honum. Innbrotsþjófurinn stakk af á vespu og hefur ekki fundist, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan hafði afskipti af tveimur fíkniefnasölum í gærkvöldi. Annar þeirra var handtekinn í Breiðholti (hverfi 109) upp úr klukkan 21 og er hann vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins. Seint í gærkvöldi hafði lögreglan síðan afskipti af ungum manni í heimahúsi í Árbænum (hverfi 110) sem er grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna og voru fíkniefnin tekin af honum. 

Um hálftíu í gærkvöldi var bifreið stöðvuð við Snorrabraut en ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna, að hafa ekið bifreiðinni sviptur ökuréttindum, misnotkun á skráningarnúmerum og vörslu fíkniefna. Í nótt var síðan för annars ökumanns stöðvuð í Kópavogi en sá var undir áhrifum fíkniefna.

Lögreglan stöðvaði síðan för bifhjóls á Reykjanesbraut um klukkan 21 í gærkvöldi en því var ekið á 119 km hraða en þar er heimilt að keyra á 80 km/klst.

Lögreglan handtók mann í annarlegu ástandi í Kópavoginum í nótt en ítrekað hefur verið tilkynnt um að maðurinn sé að fara inn í ólæstar bifreiðar. Maðurinn er vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert