Verkfall flugumferðarstjóra að hefjast

Viðræðum flugumferðarstjóra við Isavia og SA þokaði áfram á fundi …
Viðræðum flugumferðarstjóra við Isavia og SA þokaði áfram á fundi þeirra í morgun. mbl.is/Ernir

Megináhersla Félags íslenskra flugumferðarstjóra í kjaraviðræðum við SA og Isavia er að samið verði um breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks. Langflestir flugumferðarstjórar vinna vaktavinnu á ýmsum tímum sólarhringsins. Formaður félagsins segir fólk þurfa að geta lifað fjölskyldulífi meðfram starfinu.

Á morgun hefjast verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóra. Þær felast í því að flugumferðarstjórar hætta að þjálfa flugumferðarstjóranema, ráðstöfun, sem seinkar útskrift þeirra sem nemur tíma verkfallsins. Þetta á engin bein áhrif að hafa á flug en getur truflað reksturinn þegar fram líða stundir.

Að sögn Kára Arnar Óskarssonar, formanns Félags íslenskra flugumferðarstjóra, eru nemarnir nýbyrjaðir í náminu flestir og það tekur öllu jöfnu rúmt ár. Það þýðir að verkfallið gæti komið til með að fresta útskrift þessara nýbyrjuðu nema, sem að öðru jöfnu ættu að útskrifast næsta sumar eða haust, fram á næsta vetur 2020.

Um það hvort gripið verði til frekari verkfallsaðgerða en þessara til þess að knýja viðsemjendur til samninga segir Kári að engar ákvarðanir hafi verið teknar. „Ég myndi segja að við værum nokkuð róleg,“ segir Kári við mbl.is.

Samninganefndir flugumferðarstjóra áttu fund í morgun við SA og Isavia þar sem málum eitthvað áfram, að sögn Kára. „Þetta gekk ágætlega, við erum bara að ræða saman,“ segir hann. „Þetta þokast í áttina myndi ég halda,“ bætir hann við.

Flugumferðarstjórar, en sá í gula vestinu er ekki einn slíkur, …
Flugumferðarstjórar, en sá í gula vestinu er ekki einn slíkur, vinna að mestum hluta vaktavinnu. Krafa þeirra er að vinnutíminn sé styttur. mbl.is/Árni Sæberg

Næsti fundur hjá sáttasemjara verður 25. júní en verkfallið hefst á morgun. Einhverjar viðræður gætu átt sér stað utan vettvangs sáttasemjara í millitíðinni, segir Kári.

Bjartsýnn fyrir breytingum

Það eru um 145 flugumferðarstjórar í stéttarfélaginu og af þeim starfa þrír hjá Samgöngustofu en restin hjá Isavia. Mismunandi vaktakerfi eru í gildi eftir því hvar menn vinna, flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík, flugturninum í Reykjavík, flugturninum í Keflavík og flugturninum á Akureyri. Áhersla flugumferðarstjóra er hins vegar að vaktavinnunni verði breytt og krafan er meðal annars sú að vinnutíminn á vöktum verði styttur til jafns við dagvinnufólk.

Kári segir að kröfur þeirra séu ekki ósvipaðar hjúkrunarfræðinga, sem vinna einnig mikla vaktavinnu. „Við erum sammála hjúkrunarfræðingum sem eru líka í þessum deilum, að fá bætt umhverfi fyrir vaktavinnufólk, þannig að auðveldara sé að lifa fjölskyldulífi meðfram vinnunni,“ segir Kári. Ansi þreytandi geti verið að vinna næturvaktir og sinna fjölskyldulífi á daginn. Hann er bjartsýnn fyrir því að menn taki mark á þessum kröfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert