10% fjölgun umsókna í HR

3.300 vilja hefja nám hér í haust.
3.300 vilja hefja nám hér í haust. mbl.is/Árni Sæberg

Ríflega 3.300 umsóknir um nám bárust Háskólanum í Reykjavík í vor og er það fjölgun um tíu prósent frá því í fyrra, að því er fram kemur í tilkynningu frá HR. Af þeim voru 1.900 um grunnám og voru flestar þeirra í tölvunarfræði eða 450 talsins. Til samanburðar sóttu um 5.600 um grunnnám í Háskóla Íslands.

Nær 40% fjölgun hefur orðið á umsóknum um diplómanám í iðnfræði, þó umsóknarfrestur um það sé ekki liðinn, en háskólinn hefur unnið að því að vekja sérstaka athygli á möguleikum á háskólanámi eftir iðnnám.

Um 30% fjölgun varð á umsóknum um grunnnám í verkfræðideild háskólans og munar þar mestu um umsóknir um nýtt nám sem veitir MSc gráðu í verkfræði og BSc gráðu í tölvunarfræði, en 46 umsóknir bárust um það.

Þá bárust 190 umsóknir um nám í sálfræði og er það 20% fjölgun frá fyrra ári. Mikil fjölgun varð í erlendum umsóknum um meistaranám í viðskiptadeild, þar með talið MBA, meistaranám í máltækni og byggingarverkfræði. Þá hefur umsóknum um doktorsnám fjölgað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert