„Fólk er furðu lostið hérna“

„Fólk er furðu lostið hérna, það skilur þetta enginn,“ segir Brynjólfur Björnsson, eigandi Brynju við Laugaveg, þar sem byrjað var að aka í öfuga átt við það sem hefur tíðkast í áratugi, í morgun. Hann segir breytinguna ekki til góðs og að mikið hafi verið um að bílar hafi ekið á móti umferð í dag. 

mbl.is var á Laugaveginum í hádeginu þar sem augljóst var að nokkrir ökumenn höfðu ekki heyrt af þessum breytingum á akstursstefnunni, eins og sjá má af meðfylgjandi myndskeiði, þar sem er einnig rætt frekar við Brynjólf í Brynju.

Ekið og hjólað eftir gamalli venju

„Ég tók eftir því í morgun að margir óku bara eftir gamalli venju, helst þeir sem voru að koma með vörur. Þeir óku bara eins og þeir hafa verið vanir að gera síðustu 100 árin,“ segir Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í umferðardeild lögreglunnar, í samtali við mbl.is.

Hann segir að þegar umferð var hleypt á með breyttri akstursstefnu í morgun hafi ökumenn ljóslega ekki verið nægilega vel meðvitaðir um þær merkingar sem höfðu verið settar upp og svo hafi átt eftir að setja upp akstursstefnumerkingar við þvergötur.

„Klukkan 11 var götunni lokað [neðan Klapparstígs] og varð göngugata og þá hafa þeir haft tíma til þess að bæta það sem vantar upp á,“ segir Ómar.

Þessi staða á líklega eftir að koma nokkrum sinnum upp …
Þessi staða á líklega eftir að koma nokkrum sinnum upp á meðan fólk venst breytingunni. mbl.is/Hallur Már

Ómar segir að merkingarnar þurfi að vera auðlæsilegar fyrir vegfarendur og sérstaklega ökumenn. Svo þurfi ökumenn að átta sig á því að þeir þurfi að hegða sér á annan hátt og að það þurfi hjólreiðamenn líka að gera.

„Þeir hjóla bara eins og þeir eru vanir, en það á enginn að hjóla á móti akstursstefnu umferðar. Þeir sem hafa hjólað þarna síðustu 30 árin, þeir hjóluðu í dag eins og þeir voru vanir,“ segir Ómar.

Hann segir að muni eflaust taka einhvern tíma fyrir fólk að átta sig á þessari nýbreytni.

Víðar ekið gegn akstursstefnu en á Laugavegi

Ómar segir að lögreglumenn sem fylgdust með á svæðinu í dag hafi tekið eftir því að það sé ekki bara á Laugaveginum sem ökumenn virðist ekki virða þá akstursstefnu sem í gildi er, þrátt fyrir að þar sé ekki um nýlegar breytingar að ræða, á götum eins og Grettisgötu, Klapparstíg og víðar.

„Einhverjir virðast vera blindir á umferðarmerki og aka frekar eftir vilja. Viljinn er sterkari umferðarmerkjunum,“ segir Ómar og bætir við að það geti verið hættulegt fyrir gangandi vegfarendur, sem líta til hliðar miðað við akstursstefnu og ganga svo út á götuna án þess að gera ráð fyrir því að bílar komi á móti.

Hann segir að brýna þurfi fyrir ökumönnum að virða umferðarskiltin.

mbl.is