„Lærðum alveg helling“

Frá æfingunni í Skorradal í kvöld.
Frá æfingunni í Skorradal í kvöld. Ljósmynd/Pétur Davíðsson

Tæplega þrjátíu slökkviliðsmenn hafa tekið þátt í æfingu í Skorradal í kvöld vegna mögulegra gróðurelda sem þar gætu kviknað.

„Þetta er langt komið. Öll verkefnin leystust farsællega. Svo tekur við frágangsvinna og rýnifundur eftir æfinguna,“ segir Þórður Sigurðsson, varaslökkviliðsstjóri í Borgarfirði.

Ljósmynd/Pétur Davíðsson

Starfsmenn frá slökkvistöðvum í Borgarnesi, Hvanneyri, Reykholti og Bifröst tóku þátt í æfingunni. Að sögn Þórðar hefur hópurinn lært mikið í kvöld. „Við vitum meira í dag en í gær hvar við getum náð í vatn og ýmislegt fleira. Við lærðum alveg helling. Það mun mikið sitja eftir eftir þetta kvöld.“

Ljósmynd/Pétur Davíðsson

Þegar mbl.is ræddi við Þórð áttu slökkviliðsmenn eftir að kanna leiðir niður dalinn að bústöðum en allri dæluvinnu var nánast lokið.

Æfingin í kvöld var sett þannig upp að leiðin inn í Skorradal hafði lokast við Stálpastaði og var einblínt á að slökkva elda þar. Einnig var tekist á við önnur verkefni, svo sem ímyndaðan húsbruna og björgun.

Þórður telur að öllu saman ljúki á milli tíu og hálfellefu í kvöld að loknum rýnifundinum.

Ljósmynd/Pétur Davíðsson
Ljósmynd/Pétur Davíðsson
mbl.is