Mikilvægt að leyfisveitingar til virkjunar og raflína fari samhliða

Rennsli í fossinum Drynjanda myndi minnka verulega með virkjun Hvalár.
Rennsli í fossinum Drynjanda myndi minnka verulega með virkjun Hvalár. mbl.is/Golli

Þrátt fyrir að grænt ljós hafi verið gefið á gefið á undirbúningsframkvæmdir vegna Hvalárvirkjunar á enn eftir að ákveða hvernig línulagnir verða frá virkjuninni og sú framkvæmd á jafnframt eftir að fara í umhverfismat. Í lögum er ekki kveðið á um að samhliða leyfisveitingu til virkjunar þurfi að veita leyfi fyrir raflínum.

„Það er hreyfing í þá átt að taka á slíku en það er vissulega ekki í löggjöfinni í dag. Það yrði bót af því,“ segir Ásdís Hlökk Theo­dórs­dótt­ir, for­stjóri Skipu­lags­stofn­unar, spurð hvort ekki sé æskilegra að veit öll leyfi samtímis til virkjunar og tengdri framkvæmd.

Ásdís Hlökk vísar þar til frumvarps til laga um mat á umhverfisáhrifum sem er til umfjöllunar á Alþingi. Fyrirséð er að frumvarpið fái líklega ekki afgreiðslu á þessu þingi. 

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar.
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar. Ljósmynd/Aðsend

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar var því beint til sveitarstjórna og annarra leyfisveitenda að sótt væri samhliða um leyfisveitingar tengdra framkvæmda, virkjunar og raflína, fari fram samhliða.

„Við hefðum auðvitað viljað sjá umhverfismat raflínulagnanna fara samhliða umhverfismati virkjunarinnar. Það er mikilvægt að umhverfisáhrif framkvæmda sem eru háðar hver annarri eins og á við um virkjanir og raforkuflutning séu skoðuð heildstætt. Þær framkvæmdir eru hins vegar í höndum ólíkra framkvæmdaraðila og Landsnet taldi ekki tímabært að meta umhverfisáhrif raflína frá virkjuninni á þeim tíma þegar virkjunin fór í umhverfismat. Það er eftir sem áður mikilvægt að leyfisveitingar til virkjunar og raflína fari fram samhliða,“ segir Ásdís.  

Endanleg útfærsla á virkjuninni liggur ekki fyrir 

Mörkuð er stefna um Hvalárvirkjun í aðalskipulagi Árneshrepps. Sú stefna er almenn og þarfnast nánari útfærslu í skipulagi, bæði með breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi, að sögn Ásdísar Hlakkar. Það var ákvörðun sveitarstjórnar að skipta slíkri vinnu upp og fara sérstaklega í skipulagsgerð fyrir undirbúningsframkvæmdirnar og bíða með að útfæra skipulagið endanlega fyrir virkjunina í heild.

„Vissulega væri æskilegt að þegar sett eru áform um svona uppbyggingu í aðalskipulagi að það sé komin fram heildstæð og sem mest útfærð stefna um virkjunina og tengdar framkvæmdir, hvort sem það er vegagerð eða raflínulagnir,“ segir Ásdís Hlökk. Hún bendir á að oft eru hugmyndir komnar mislangt á veg og mismikið útfærðar þegar unnið er aðalskipulag sveitarfélaga. „Það er alltaf matsatriði hvað er raunhæft og tímabært að setja fram mikið útfærða stefnu á hverjum tíma. Það gildir hvort sem verið er að marka stefnu um virkjun, verndun eða aðra uppbyggingu á hverjum tíma,“ segir hún.

Sveitar­stjórn Árnes­hrepps samþykkti í vikunni fram­kvæmda­leyfi fyr­ir undirbúningsframkvæmdum vegna virkj­ana­fram­kvæmda við Hvalár­virkj­un. Leyfið tek­ur m.a. til fram­kvæmda við vega­gerð að og um virkj­un­ar­svæðið, brú­ar­gerðar yfir Hvalá, bygg­ingar vinnu­búða og frá­veitu, sem og rann­sókna á jarðfræðileg­um þátt­um. Þetta hefur talsvert jarðrask í för með sér. Landvernd hefur til að mynda bent Vesturverki sem sér um þessar framkvæmdir að hægt væri að rannsaka svæðið með öðrum hætt sem fæli ekki í sér tilheyrandi jarðrask.

Það er vel þekkt í virkjanaframkvæmdum að það þarf að fara í ákveðna undirbúnings rannsóknir. Þær geta kallað á jarðrask og mannvirkjagerð. Ásdís Hlökk segir það örðugt um vika að setja almennt þær reglur í löggjöf að ekki væri hægt að gefa út leyfi til rannsókna nema fyrir allri framkvæmdinni í einu. Í þessu samhengi bendir hún á jarðhitarannsóknir sem þarf að fara í áður teknar eru ákvarðanir um jarðhitavirkjanir. Hún tekur þó fram að vissulega séu slíkar framkvæmdir ólíkar í eðli sínu því sem á við í tilviki Hvalárvirkjunar.  

Niðurstaða sveitastjórnar og framkvæmdaraðila er á þá leið að ekki var talið raunhæft að gera rannsóknir með öðrum hætti en fyrrgreindum framkvæmdum. „En það er mikilvægt að hafa í huga að enn á eftir að ganga frá skipulagi og leyfisveitingum til byggingar sjálfrar virkjunarinnar. Það er önnur ákvörðun.“ segir hún ennfremur.

Hún bætir við að ávallt sé hægt að velta því fyrir sér hvort ramminn gæti verið skýrari en tekur fram að ef fyrrgreint frumvarp næði fram að ganga myndi það skerpa umgjörð um ákvarðanatöku um framkvæmdir af þessu tagi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina