„Ótækt að sitja innan um hryðjuverkamenn“

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks.
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks. AFP

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, segir ótækt að Julian Assange, stofnandi miðilsins, sé látinn sitja inni í öryggisfangelsi innan um hryðjuverkamenn og morðingja. Assange fær tvo heimsóknardaga í mánuði og hefur Kristinn hitt hann í fangelsinu, en segist koma flestum skilaboðum til fangans í gegnum lögmenn hans. Vonast hann til að Assange fái reynslulausn að 26 vikum liðnum eða í desember.

Kristinn er á leið til London af þingi Alþjóðablaðamannasambandins í Túnis. Þar mælti hann fyrir ályktun sem ástralska blaðamannasambandið lagði fram um að framsalsbeiðni Julian Assange til Bandaríkjanna yrði harðlega mótmælt.

Þegar blaðamaður náði tali af Kristni hafði hann ekki fengið fréttir af því að til stæði að taka mál Assange fyrir í breskum dómstólum í febrúar á næsta ári, en segist hafa átt von á að biðin yrði ekki svo löng. „En það er ljóst að ekki er verið að keyra þetta fram með miklum látum.“

Assange situr nú inni í öryggisfangelsinu Belmarsh í suðurhluta Lundúna í 52 vikur fyrir að hafa flúið réttvísina og sóst eftir hæli í sendiráði Ekvador þegar til stóð að rétta yfir honum árið 2012. Þá átti hann einnig yfir höfði sér framsalsbeiðni, en í það skiptið frá Svíum þar sem Assange var ákærður fyrir nauðgun.

Kristinn segir ánægjulegt hve mikinn stuðning tillagan hafi hlotið og nefnir í því skyni ályktanir blaðamannafélagsins íslenska, Félags fréttamanna RÚV, auk sambanda sænskra, norskra og þýskra blaðamanna, svo nokkur dæmi séu nefnd.

„Eini ágreiningurinn sem ég fann fyrir var að sumir vildu ganga enn lengra og senda frá sér harðorðari yfirlýsingu,“ segir Kristinn sem segir blaðamenn samhljóða í fordæmingu sinni á þeirri aðför að grunngildum blaðamennskunnar og starfsöryggi stéttarinnar, sem málinu fylgi.

„Við verðum að átta okkur á því að þetta mál er miklu stærra en bara Julian Assange eða Wikileaks.“

Kristinn er á leið til London þar sem hann hyggst …
Kristinn er á leið til London þar sem hann hyggst meðal annars vinna að því að koma almenningi í skilning um mikilvægi þess að Assange verði látinn laus. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert