Rafiðnaðarmenn undirrita kjarasamning

Samið var um styttingu virks vinnutíma í dagvinnu í kjarasamningi …
Samið var um styttingu virks vinnutíma í dagvinnu í kjarasamningi Rafiðnaðarmanna. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Félag atvinnurekenda og Rafiðnaðarsamband Íslands undirrituðu í dag nýjan kjarasamning. Fram kemur í frétt á vef Félags atvinnurekenda að launabreytingar og forsendur samningsins séu þær sömu og í samningum við VR/LÍV og Grafíu, sem gerðir voru í apríl og maí. 

Þannig var samið um styttingu virks vinnutíma í dagvinnu úr 37 stundum og 5 mínútum í 35 stundir og 30 mínútur í áföngum á tveimur árum og voru um leið gerðar breytingar á yfirvinnugreiðslum. Sú breyting kemur til framkvæmda í áföngum, 1. apríl á næsta ári og 1. apríl 2021. Þá verður heimilt að skipuleggja dagvinnu á tímabilinu 7 til 19.

Samningurinn gerir ráð fyrir að atvinnurekandi hafi samráð við starfsmenn um styttingu vinnutímans á hverjum vinnustað.

Samhliða styttingu vinnutímans koma inn í samninginn ný ákvæði um yfirvinnu, sem taka gildi á næsta ári. Hún skiptist framvegis í yfirvinnu 1, sem greiðist með tímakaupi sem samsvarar 1% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu, og yfirvinnu 2, sem er greidd fyrir virkan vinnutíma umfram 41 klst. á viku að meðaltali á launatímabili eða mánuði. Yfirvinna 2 greiðist með tímakaupi sem samsvarar 1,15% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu.

Samningurinn verður kynntur félagsmönnum í FA á félagsfundi 19. júní.

mbl.is