Rigning eftir helgi

Bændur og veiðimenn kvarta undan þurrki á Suður- og Vesturlandi.
Bændur og veiðimenn kvarta undan þurrki á Suður- og Vesturlandi. mbl.is/RAX

Veðrið í dag er svipað og það hefur verið undanfarna daga og er ekki að sjá neinar stórvægilegar breytingar á veðurlagi næstu daga.

„Heldur léttir til norðaustan til í kvöld og á morgun en áfram er útlit fyrir að hlýjast verði í innsveitum sunnan- og vestanlands, þar sem hiti gæti farið yfir 20 gráður. Á morgun lægir talsvert, og í kjölfarið getur hafgolan látið til sín taka en þokuloft yfir landi virðist þó bundið við næturlag. Eftir helgi er útlit fyrir skúri eða rigningu á sunnanverðu landinu, eftir langvarandi þurrka þar en enn er ekki spáð neinni úrkomu að ráði á vestanverðu landinu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Vegna langvarandi þurrka hefur óvissustigi almannavarna verið lýst yfir á Vesturlandi vegna hættu á gróðureldum. Ekki er útilit fyrir úrkomu á svæðinu næstu vikuna svo því er brýnt að fara mjög varlega með eld. 

Veðurspá fyrir næstu daga

Norðaustlæg eða breytileg átt, 3-10 en 10-15 við Breiðafjörð og með suðausturströndinni síðdegis í dag. Hægari austlæg átt á morgun. Skýjað austan og norðaustanlands og dálítil væta við ströndina fram eftir morgni en skýjað með köflum eða léttskýjað sunnan og vestan til. Léttir heldur til norðanlands síðdegis á morgun en líkur á þokulofti annað kvöld. Hiti frá 8 stigum norðaustan til upp í 20 stig á Suður- og Vesturlandi.

Á laugardag:

Austan 5-10 m/s. Skýjað með köflum norðan og vestanlands og líkur á stöku síðdegisskúrum á vestanverðu landinu en dálítil rigning suðaustanlands og á Austfjörðum. Hiti 12 til 20 stig, hlýjast SV-til en svalara á annesjum austanlands. 

Á sunnudag:
Hæg austlæg átt. Skýjað með köflum og þurrt á austanverðu landinu en léttskýjað vestan til. Hiti 12 til 18 stig, en svalara á annesjum austanlands og með norðurströndinni. 

Á mánudag (lýðveldisdaginn):
Norðaustlæg átt, 3-8 m/s. Skýjað og allvíða dálítil væta en áfram þurrt á Vesturlandi og norðvestan til. Hiti 8 til 18 stig yfir daginn, hlýjast vestanlands. 

Á þriðjudag:
Fremur hæg norðaustlæg átt, skýjað víðast hvar og rigning eða skúrir sunnan jökla. Kólnar lítið eitt. 

Á miðvikudag:
Útlit fyrir hæga norðaustlæga átt og þurrviðri um allt land. Hiti 8 til 15 stig. 

Á fimmtudag:
Útlit fyrir hæga breytileg átt, þurrviðri og heldur hlýnandi veður.

mbl.is