Hyggst ekki samþykkja orkupakkann

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, ætlar ekki að greiða atkvæði með samþykkt þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Þessu greindi þingmaðurinn frá í umræðum á Alþingi á dögunum og ítrekaði síðan í umræðum um málið á Facebook-síðu sinni í gær.

„Ég mun ekki samþykkja 3OP og hef útskýrt í ræðu að það sé vegna þess að ég láti stjórnarskránna njóta vafans, en ekki vegna þess að ég hræðist 3OP. Mín vegna má málið fara fram á haust, í þjóðaratkvæðagreiðslu og til sameiginlegu EES-nefndarinnar,“ sagði Jón Þór á Facebook spurður um afstöðu sína til málsins.

Vísar Jón Þór þar til efasemda sem komið hafa fram um að þriðji orkupakkinn, sem ætlast er til að Ísland taki upp vegna aðildar landsins að EES-samningnum, standist stjórnarskrána. Þær efasemdir hafa meðal annars komið fram hjá Stefáni Má Stefánssyni, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðrik Árna Friðrikssonar Hirst, landsréttarlögmanni og framkvæmdastjóra Lagastofnunar HÍ,  en þeir rituðu álitsgerð um málið fyrir utanríkisráðuneytið.

Fáir aðrir þingmenn, fyrir utan þingmenn Miðflokksins, hafa lýst því yfir að þeir ætli að greiða atkvæði gegn samþykkt þriðja orkupakkans. Fullyrt hefur verið að Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi tilkynnt þingflokki sjálfstæðismanna að hann ætli ekki að styðja orkupakkann en hann hefur ekki staðfest það opinberlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert