Skjót viðbrögð þökk sé aukabakvakt

Slökkviliðsmaður að störfum.
Slökkviliðsmaður að störfum. mbl.is/Árni Sæberg

Þakka má aukabakvakt á stöðvum slökkviliðsins í Borgarfirði að slökkviliðsmenn frá Reykholti voru eins snöggir á vettvang og raun bar vitni þegar eldur kviknaði í vararafstöð fyrir svínabúið á Hýrumel í dag.

Þetta segir Þórður Sigurðsson, varaslökkviliðsstjóri hjá slökkviliðinu í Borgarfirði.

Ákveðið var að hafa fasta bakvakt þessa helgi vegna óvissustigsins sem er uppi á Vesturlandi, sérstaklega í Skorradal, vegna langvarandi þurrka og hættunni á gróðureldum.

„Þeir voru mættir mjög fljótlega og réðu niðurlögum eldsins fljótt og örugglega en þetta leit mjög illa út í fyrstu,“ segir Þórður um slökkviliðsmennina frá Reykholti sem voru fyrstir á vettvang.

„Viðbragðið hefði sannarlega ekki verið svona gott. Það sannar sig að þarna borgaði hún sig,“ bætir hann við um aukabakvaktina.

Vararafstöðin er í gámi við svínabúið og að sögn Þórðar var mikil sambrunahætta á ferðinni. Allt bendir til þess að kviknað hafi í út frá rafmagni en miklar skemmdir urðu á rafmagnsbúnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert