Sýknaður af ákæru um kynferðisbrot

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur hefur sýknað karlmann af ákæru um kynferðisbrot gegn konu en hann hafði verið dæmdur í þriggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness.

Maðurinn var í héraðsdómi í ágúst í fyrra einnig dæmdur til að greiða konunni rúmar 2,7 milljónir króna í sakarkostnað. Jafnframt var hann dæmdur til að greiða konunni 1,4 milljónir króna í miskabætur, auk vaxta.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við konuna í húsagarði í miðbæ Reykjavíkur gegn vilja hennar með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung.

Hann var sakaður um að hafa gripið í hár konunnar og þvingað hana til að hafa við sig munnmök með því að þrýsta framan á háls hennar, tekið svo niður  buxur  hennar og  reynt að hafa við hana samræði í endaþarm  og leggöng, síðan gripið aftur í hár hennar og þvingað hana til að hafa við sig munnmök í  annað  sinn. Hann neitaði sök en var sakfelldur fyrir þetta í héraðsdómi.

Landsréttur tók fram að framburður konunnar um fyrri munnmök hennar og mannsins væri ekki skýr um hvort þau hefðu farið fram gegn vilja hennar. Þá hefði framburður hennar um atvik eftir þau munnmök ekki næga stoð í framlögðum gögnum til að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum væri gefin sök. Því var hann sýknaður af sakargiftum. Einkaréttarkröfu konunnar var einnig vísað frá.

mbl.is