„Þetta er svo mikil veisla“

Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari.
Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari.

„Þetta er metnaðarfyllsta og stærsta verkefni mitt á Íslandi til þessa,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari um tónlistarhátíðina Reykjavík Midsummer Music (RMM) sem verður haldin í Reykjavík eftir viku, dagana 20. til 23. júní. Efnisskráin er, eins og hann segir, æði metnaðarfull og koma þekktir og virtir erlendir tónlistarmenn fram, auk Víkings sjálfs. Tónleikarnir verða í Eldborgar- og Norðurljósasölum Hörpu og í Mengi.

Víkingur Heiðar stofnaði hátíðina árið 2012 og hefur hún frá upphafi verið haldin í samstarfi við Hörpu. Víkingur er listrænn stjórnandi og frá byrjun hefur hátíðin vakið athygli fyrir kraftmikla og frumlega dagskrá. Hefur hún laðað til landsins einvalalið heimskunnra listamanna sem hafa komið fram með færum íslenskum tónlistarmönnum. Listræn stefna hátíðarinnar einkennist af því að öll tónlist sem flutt er í dag flokkist í raun sem nútímatónlist, hvort sem hún var samin á 17. eða 21. öldinni. Víkingur segir að þegar verkum úr ólíkum áttum og frá ólíkum tímum sé teflt saman geti „orðið mikill galdur, hverjir tónleikar að sögu sem aldrei fyrr hefur verið sögð“.

Sest á milli Labèque-systra

Víkingur segir RMM vera sitt „tónlistarlega afkvæmi“ og sé hann ætíð með hugann við það að finna listamenn til að koma fram. „Það koma tíu ólíkir en rosalegir tónlistarmenn til landsins að spila,“ segir hann. „Þeim fjölgaði smám saman og í lokin sögðu enn fremur já við boðinu listamenn sem ég hefði í raun aldrei trúað að myndu mæta, eins og Katia og Marielle Labèque, systurnar þekktu sem ég hitti í Brussel í febrúar. Við áttum skemmtilegt samtal og þá kom í ljós að við höfum fylgst hvert með öðru þótt við hefðum aldrei hist. Við lékum á tónleikum þar á sömu hátíð og ræddum saman á eftir. Ég sendi þeim svo sms daginn eftir og spurði hvort þær vildu ekki koma til Reykjavíkur á hátíðina núna og þær svöruðu strax játandi. Þær eru vitaskuld bókaðar langt fram í tímann en eiga þrjá daga lausa og ættu í raun að vera heima í París að slaka á en ákváðu þess í stað að koma til Reykjavíkur.“

Víkingur segir að þau Labèque- systur séu að ræða að flytja saman eftir tvö ár píanókonsert eftir Mozart fyrir þrjú píanó og hljómsveit. „Það hljómar hættulegt,“ segir hann brosandi; „ég verð á milli þessara kvenna sem hafa verið fremsti píanódúettinn síðan snemma á níunda áratugnum. Þetta eru franskar tónlistargyðjur sem eru á aldur við foreldra mína og hafa verið mjög lengi í fremstu röð og tekið þátt í að skapa tónlistarsöguna hvað varðar leik á tvo flygla. Þær spila tvisvar á hátíðinni, fyrst í Norðurljósum og svo í Eldborg á lokatónleikunum og þá ætla ég í fyrsta sinn að prufa að spila með þeim, að setjast í miðjuna og við spilum verk eftir Rachmaninoff sexhent á eitt píanó.“

Heildstæðar sögur á tónleikum

Það er glæsilegur hópur listamanna sem kemur fram á hátíðinni; leggur Víkingur upp með einhverja grunnhugmynd fyrir hana eða mótar efnisskrána út frá flytjendunum?

„Fyrst listamenirnir núna eru þetta ólíkir og koma úr ýmsum áttum þá ákvað ég að leyfa þeim að móta dagskrána með mér, að spila það sem þau langar að spila. En ég raðaði verkunum upp í efnisskrár sem segja heildstæðar og einstakar sögur. Fyrri tónleikarnir í Norðurljósum, á föstudagskvöldinu, kallast „Að skrifast á“ og þar er keðja verka tónskálda sem eru með tónlistarlegar tileinkanir hvert til annars. Við flytjum falleg verk eftir Schumann og György Kurtág fyrir óvenjulega hljóðfæraskipan, víólu, klarinett og píanó, svo kemur verk eftir einn gestinn, Mark Simpson sem er eitt helsta tónskáld Breta af ungu kynslóðinni og það er tileinkað Kurtág. Hinn þráðurinn á þessum tónleikum er samtal milli Bachs og Schumanns. Þar kemur fram Florian Boesch, ljóðasöngvari sem ég dái. Við hittumst í Konzerthaus í Vín fyrir um ári síðan og þá bauð ég honum.“

Þeir Boesch og Víkingur Heiðar unnu báðir til tónlistarverðlauna BBC á dögunum; sá fyrrnefndi í flokki ljóðasöngs en Víkingur fyrir plötu ársins og sem flytjandi ársins.

Víkingur Heiðar Ólafsson stendur fyrir mikilli veislu í Hörpu.
Víkingur Heiðar Ólafsson stendur fyrir mikilli veislu í Hörpu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það var nú tilviljun sem við sáum nú ekki fyrir þegar við ákváðum þetta samstarf hér,“ segir Víkingur brosandi. „Florian býr yfir gríðarlegri raddfegurð sem fær fólk til að bráðna og svo er hann líka greindur og hæfilega flippaður. Á lokatónleikum hátíðarinnar í Konzerthaus, því fornfræga tónlistarhúsi, tókum við grínatriði þar sem ég spilaði etýðu númer 2 eftir Philip Glass og hann impróviseraði ofan á hana við ljóðlínu eftir hnefaleikakappann Mohammed Ali. Florian er nú á hátindi ferilsins og ég held að enginn baritón-ljóðasöngvari standi honum framar í dag,“ segir Víkingur.

„Stórkostlega erfitt“

Víkingur viðurkennir að hann sé sífellt með það í huga að finna listamenn fyrir hátíðina sína.

„Ég vel á hátíðina listamenn sem ég hef kynnst og hrifist af. Fólk sem mig langar að koma með hingað, en það vantaði svona hátíð hér. Hér er frábær klassísk sena kringum Sinfóníuhljómsveitina sem fær flotta einleikara til landsins – sumt af fólkinu sem ég býð hefur komið og leikið einleik með henni – en annars er of lítið af einleiks- og kammertónleikum hér á landi, í Hörpu sem annars staðar. Við þurfum að fá fleiri listamenn að utan. Kammersenan innanlands er fín en mér finnst vanta fleiri erlenda gesti til að auka dýnamíkina. Mér finnst þess vegna mjög mikilvægt að það sé ein svona hátíð á Íslandi.“

Hann bætir við að það sé „stórkostlega erfitt“ að hrinda hátíð með umfang sem þetta í framkvæmd. „Það er mun erfiðara hér en í nágrannalöndunum, eins það og að finna fjármagn og fá fólk til að skilja um hvað um er að ræða,“ segir hann. „Áhorfendur eru heldur ekki vanir kammerprógrammi sem þessu, þar sem ekki er hægt að útskýra með auðveldum hætti um hvað sé að ræða. Við bjóðum til að mynda upp á tónleika með 85 ára raftónlistarmanni frá Þýskalandi, Roedelius, sem er einn af feðrum „ambient“ tónlistar.“ Þess má geta að Roedelius er einn þeirra sem endurunnu verk eftir Bach sem Víkingur Heiðar hafði hljóðritað og voru á síðasta diski hans, en meðal annarra sem tókust á við það og má heyra í útgáfu frá Deutsche Grammophon eru Ryuichi Sakamoto, Valgeir Sigurðsson, Hildur Guðnadóttir og Skúli Sverrisson.

Og Víkingur heldur áfram að nefna gesti sína, í þeim hópi séu einstakir strengjaleikarar: „Ilya Gringolts vann Paganini-keppnina fyrir löngu síðan og er mikil „sensasjón“; hefur verið lengi á hæsta stalli. Svo koma tveir sellóleikarar, Jakob Koranyi og Leonard Elschenbroich, menn á mínum aldri og meðal þeirra fremstu á sínu sviði. Þá er Yura Lee alveg stórmerkileg. Hún er jafnvíg á fiðlu og víólu, sem er mjög sjaldgæft. Hún var undrabarn og fór í tónleikaferð með New York-fílharmóníunni 13 ára gömul. Þegar hún var 15 ára komst hún upp á kant við foreldra sína. Þá hafði hún haldið þeim uppi fjárhagslega en þau vildu taka hana frá New York og fara aftur til Suður-Kóreu, inn í strangkristið samfélag. Yura Lee var þá orðin stórstjarna og sagði ákveðið nei. Hún er síðan orðin stórstjarna sem allir í tónlistarheiminum þekkja. Hún spilar mikið á hátíðinni og ég er mikill aðdáandi.“

Leikur sjálfur á þeim öllum

Við að skoða efnisskrána vekur athygli að Víkingur Heiðar tekur sjálfur þátt í öllum dagskrárliðum.

„Já, ég ákvað að spila sjálfur mkið á þessari hátið,“ segir hann. Það krefst vitaskuld mikils undirbúnings og tíminn er af skornum skammti. „Nú er sonur minn orðinn tveggja mánaða og þegar ég kom heim fyrir viku eftir tónleikahald erlendis þá hafði ég verið hálfa ævi hans í burtu. Það er ekki góð tölfræði fyrir foreldri að horfast í augu við. Ég hef verið mikið á flakki. Og á sama tíma er þessi hátíð nú umfangsmeiri en áður og ég ekki haft jafn knappan tíma til að undirbúa hana. Ég er með frábært teymi í kringum mig, það vantar ekki, en ég hef æft mig fram á nætur og verið að sinna því sem þarf að sinna – og mér finnst það mjög gaman. Ég get alveg ímyndað mér að gráu hárunum fjölgi aðeins við þetta...“ segir hann og strýkur yfir hárið. „En ég vil gefa allt sem ég á í hátíðina, fyrst ég er að standa í þessu á annað borð.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Á efnisskránni eru verk sem hafa aldrei fyrr verið flutt hér á landi. Til dæmis hinn stórkostlega fallegi fiðrildakvartett, Papillon, eftir Bent Sørensen sem er eitt af mínum eftirlætis lifandi tónskáldum. Ég leik það nú í fyrsta sinn en á meðal annars eftir að leika það með Los Angeles fílharmóníunni og í Konzerthaus í Berlin þegar ég verð staðarlistamaður þar næsta vetur.

Svo flytjum við nýja píanótríós-útsetningu á Souvenir de Florence eftir Tsjaikovskíj, sem er upprunalega strengjasextett en nú er komin fulkomlega geggjuð útgáfa fyrir píanótríó sem setur verkið í alveg nýtt samhengi. Að fá nýtt tríó eftir Tsjaikovskij er auðvitað frábært!

Við byrjum og endum dagskrána með tvennum Eldborgartónleikum og erum svo með aðeins tilraunakenndara prógramm í Norðurljósum á milli. Í Eldborg verða sannkölluð glæsiprógrömm, til dæmis píanókonsert eftir Bach sem ég spila á lokatónleikunum og systurnar spila verk eftir Philip Glass en þær hafa mikið unnið með honum; hann skrifaði fyrir þær konsert fyrir tvö píanó og fullskipaða hljómsveit sem væri gaman að heyra hér einhverntímann.“

Þá eru ónefndir tvennir miðnæturtónlekar í Mengi. Á öðrum verður Roedelius með hljóðleiðangur sem Víkingur og Yura Lee taka þátt í en prógramm með blönduðum verkum á hinum. „Eftir að hafa verið að allan daginn eru svona miðnæturtónleikar býsna skemmtilegir, þá opnast oft nýjar gáttir,“ segir hann. „Bæði fyrir áhorfendur og listamennina sem hlusta og spila þá með öðrum hætti. Tími dags og ástand getur haft mikil áhrif á upplifun sem túlkun.“

„Get tapað fullt af pening“

Þessi hátíð er því umfangsmikil og gestirnir koma víða að. Er það ekki dýrt og áhættan mikil?

„Jú, og áhættan er mín,“ svarar Víkingur „Ég get tapað fullt af pening á þessu en það er samt þess virði. Maður sér aldrei eftir því að halda stórkostlega veislu. Peningar skipta ekki miklu máli í því samhengi – en jú, ég tek áhættu.

Það er erfitt að fá fyrirtæki á Íslandi til að taka þatt í þessu og skilja hvað þetta er; það er ekki auðvelt að vera hér með viðburð af þessu tagi. En mér er fjandans sama, ég geri þetta samt og held það fari mjög vel! Ef ég væri stressuð týpa væri ég að fríka út núna, en ég er það ekki, þetta er svo mikil veisla.“

Ný plata í janúar

Undanfarin misseri hefur Víkingur Heiðar haft öflugan vind í seglin. Síðasta plata hans með píanóverkum eftir J.S. Bach hefur hlotið einróma lof og sama má segja um tónleika sem hann hefur haldið undanfarið víða um lönd til að fylgja útgáfunni eftir. Og dagskráin er þegar orðin þétt og vel skipulögð hjá honmum næstu árin, til að mynda sem staðarlistamaður við hið virta Konzerthaus í Berlín næsta vetur. Hann segir það vera hið fyrsta af nokkrum slíkum prógrömmum sem verið sé að stilla upp en hann muni í kjölfarið gegna slíkri stöðu í London og í Brussel.

„Og alls staðar ætla ég eiginlega að gera of mikið,“ segir Víkingur og brosir. „Í Berlín kem ég að ellefu ólíkum verkefnum. Þar af eru fjórir píanókosertar, tvennir einleikstónleikar, þrennir stórir kammertónleikar með fólki sem ég dái, meðal annars Florian Boesch, Martin Fröst og Danish String Quartet. Á konsertunum leik ég alls konar verk, til dæmis konsert Daníels Bjarnasonar, Processions, sem ég hef flutt talsvert; ég leik hann með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem kemur sem gestur á Íslandshátíð. Svo verð ég með Bach-tónleika sem tengjast plötunni en verð líka með útgáfutónleikana vegna nýrrar plötu sem kemur út hjá Deutsche Grammophon í janúar.“

Hann segist ekki reiðubúinn að upplýsa hvaða verk og eftir hverja verða á plötunni. „Það verður samtal tveggja tónskálda, það eru 200 ár á milli þeirra en þeir eru tengdir og ótrúlega fallegur þráður þar á milli. Ég tek hana upp í Hörpu í ágúst. Fyrst held ég nokkra tónleika með efnisskránni, tek mér svo tíu daga hvíld og hugsa um hana áður en við hljóðritum,“ segir Víkingur Heiðar en viðtalið má lesa í heild í Morgunblaðinu í gær.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Innlent »

Eiga svefnstað á Laugarnestanga

08:40 Útigangsfólk hefur búið sér svefnstað á Laugarnestanga í Reykjavík og heldur sig þar um nætur. Þessir næturstaðir í borginni hafa reyndar verið fleiri, má þar nefna rjóður við Klambratún, Öskjuhlíðina og Örfirisey. Meira »

Drónar fundu áður óþekktar minjar

07:57 Íslenskir fornleifafræðingar eru nú farnir að nota dróna með góðum árangri við rannsóknir sínar. Rannsókn, sem framkvæmd var sumarið og haustið 2018, leiddi í ljós nokkrar áður óþekktar minjar í Þjórsárdal sem þó er ein mest rannsakaða eyðibyggð hér á landi. Meira »

Lengsta skip sem hingað hefur komið

07:37 Sögulegur viðburður verður á morgun, föstudaginn 19. júlí. Þá kemur til Reykjavíkur í fyrsta sinn farþegaskipið Queen Mary 2. Meira »

Ekið á mann á vespu

07:35 Ekið var á mann á vespu við Fitjatorg í Reykjanesbæ um sjöleytið í morgun. Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum slapp sá sem var á vespunni svo gott sem ómeiddur frá óhappinu, en einhverjar skemmdir urðu á vespunni. Meira »

Bjart með köflum og allt að 20 stiga hiti

07:26 Norðaustlæg átt, 5-13 m/s, verður á landinu í dag. Búast má við rigningu á landinu austanverðu, en bjart verður með köflum og þurrt að kalla sunnan- og vestanlands. Hiti verður víða á bilinu 12 til 20 stig, en 8 til 12 stig við austurströndina. Meira »

Handtekinn grunaður um vændiskaup

07:13 Slagsmál og grunur um vændiskaup voru meðal verkefna næturinnar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.  Meira »

Hellisheiði lokað vegna malbikunarframkvæmda

06:13 Lokað hefur verið fyr­ir bílaum­ferð um Hell­is­heiði í átt til vest­urs á milli Hvera­gerðis og af­leggj­ara að Hell­is­heiðar­virkj­un vegna mal­bik­un­ar­fram­kvæmda. Þeirri um­ferð verður beint um Þrengslaveg. Hins veg­ar verður opið fyr­ir um­ferð til aust­urs. Meira »

Orkupakkinn takmörkun á fullveldi

05:30 Yrði þriðji orkupakkinn innleiddur í íslenskan rétt mundi það fela í sér takmörkun á fullveldi þjóðarinnar í raforkumálum. Íslendingar væru að játa sig undir það að raforka, eins og hver önnur vara, flæddi frjáls á milli landa. Meira »

Vonast eftir frumvarpi um jarðakaup í haust

05:30 Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segist binda vonir við að frumvarp um jarðakaup útlendinga hér á landi verði tilbúið snemma í haust. Meira »

Kökur til fjármögnunar slysavörnum

05:30 „Slysavarnadeildirnar um allt land fjármagna forvarnarstarfið með því að selja kökur og sjá um erfidrykkjur,“ segir Svanfríður Anna Lárusdóttir, verkefnastjóri slysavarna hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, en félagið hefur í sjálfboðavinnu unnið að 170 slysavarnarverkefnum á 34 þéttbýliskjörnum á landinu. Meira »

Ósætti vegna breytinga á endurgreiðslukerfinu

05:30 „Við munum beita okkur af öllum krafti á móti þessu,“ segir Kristinn Þórðarson, formaður Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, um tillögur að breytingu á lögum um endurgreiðslu ríkisins á kostnaði við kvikmyndagerð hér á landi. „Þetta er ein stór þversögn,“ segir hann. Meira »

Um 60 kílóum af mat hent daglega

05:30 Matarsóun á hjúkrunarheimilinu Eir á átta dögum nam 59,7 kg á dag að meðaltali. Sóun á heimilinu yfir átta daga tímabil var könnuð og fóru 358,3 kg af mat til spillis. Meira »

Andlát: Hanna Sigríður Hofsdal Karlsdóttir

05:30 Hanna Sigríður Hofsdal Karlsdóttir lést á Landspítalanum 11. júlí, 88 ára að aldri.   Meira »

Íhuga ítarlegri úttekt á Póstinum

05:30 Leynd hvílir yfir kaupvirði þriggja dótturfélaga Íslandspósts, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.   Meira »

Eru alltaf á vaktinni

05:30 „Það þarf að endurskoða kerfið alveg frá grunni,“ sagði Charlotta Oddsdóttir, formaður Dýralæknafélags Íslands, um þjónustusamninga Matvælastofnunar (MAST) við dýralækna í dreifðum byggðum. Meira »

Fá ekki að skrá sig sem foreldra

00:07 Mannréttindadómstóll Evrópu samþykkti í vikunni að taka til efnismeðferðar mál tveggja íslenskra kvenna, sem Hæstiréttur hafnaði að skrá sem foreldra drengs. Meira »

Eldur í loftpressu í íþróttahúsi

Í gær, 23:10 Eldur kviknaði í loftpressu í kjallara íþróttamiðstöðvar í Vestmannaeyjum á áttunda tímanum í kvöld. Starfsmenn höfðu snör handtök og náðu að slökkva eldinn þegar slökkviliðið kom á staðinn. Töluverður reykur hafði náð að berast í sundlaugarsal og því var reykræst. Tjónið var minni háttar. Meira »

„Sem betur fer sleppur konan“

Í gær, 21:14 „Betur fór en á horfðist þegar mannlaus bifreið rann af athafnasvæði í Súðarvogi. Bifreiðin lenti næstum á hjólareiðamanni áður en bifreiðin lenti á vegg.“ Þannig hljómar Facebook-færsla Búa Baldvinssonar kvikmyndagerðarmanns en litlu munaði að slys yrði á vinnusvæði við Súðarvog í dag. Meira »

Lokað fyrir umferð í aðra átt á Hellisheiði

Í gær, 21:00 Lokað verður fyrir bílaumferð um Hellisheiði í átt til vesturs á milli Hveragerðis og afleggjara að Hellisheiðarvirkjun í fyrramálið frá kl. 6 til 22 vegna malbikunarframkvæmda. Hins vegar verður opið fyrir umferð til austurs. Meira »
Ýmislegt til bókbandsvinnu
Til sölu eru ýmsir hlutir til bókbandsvinnu, pressur, saumastól m.m. Áhugasamir...
BOLIR -1800
Tískuverslunin Smart Grímsbæ/Bústaðavegi BOLIR - 1800 ST.14-30 Sími 588 8050. - ...
Leiga, herb. hús, við Gullna hringinn..
Studio herb. með sérbaði og eldunaraðstöðu, hlýleg og kósí, 5 mínútur frá Gey...
Einstakt sumartilboð - 14,44 fm Garðhús - kr. 375.900,-
Naust er bjálkahús úr 34mm bjálka með tvöfaldri nót. Húsið er 3,8m x 3,8m og er...