Þyngri dómur vegna þungs hnefahöggs

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hari

Landsréttur hefur þyngt dóm yfir Andra Vilhelm Guðmundssyni fyrir að hafa að tilefnislausu ráðist að öðrum manni á skemmtistað og veitt honum þungt hnefahögg í andlit með þeim afleiðingum að þrjár tennur í munni hans brotnuðu. Þá hlut maðurinn einnig aðra áverka á andliti.

Landsréttur dæmdi Andra Vilhelm í tveggja og hálfs árs fangelsi og til að greiða brotaþola rúma eina og hálfa milljón króna með vöxtum en hann hafði krafist rúmlega 4,6 milljóna króna í miskabætur. Einnig var Andra gert að greiða allan sakarkostnað málsins í héraði upp á rúmar 2,2 milljónir króna. Sömuleiðis var honum gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eða tæpar 830 þúsund krónur.

Andri Vilhelm var í Héraðsdómi Suðurlands í febrúar í fyrra dæmdur í tveggja ára og tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna árásarinnar. Þá var honum gert að greiða brotaþola 80 þúsund krónur í miskabætur.

Fram kemur í dómi Landsréttar að Andri hefði játað að hafa slegið manninn einu hnefahöggi en taldi það ekki hafa verið þungt högg. Byggði ákærði jafnframt á því að meiðsl brotaþola kynnu að hafa stafað af atvikum sem áttu sér stað í kjölfarið handan barborðs og utan sýnar eftirlitsmyndavélar.

„Af myndbandsupptökunni verður skýrlega ráðið að höggið sem ákærði veitti brotaþola var mjög þungt og að ákærði hlaut við höggið skurð á handarbak vinstri handar,“ segir aftur á móti í dómnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert