10 mánuðum á eftir áætlun

Afhending hjúkrunarheimilisins að Sólvangi frestast mánuð í viðbót.
Afhending hjúkrunarheimilisins að Sólvangi frestast mánuð í viðbót. Tölvumynd/ONNO ehf.

Hjúkrunarheimilið á Sólvangi í Hafnarfirði verður ekki afhent rekstraraðila í dag eins og til stóð. Upphaflega var gert ráð fyrir afhendingu 20. september 2018, en nú er stefnt að afhendingu 15. júlí, að því er fram kemur í svari Hafnarfjarðarbæjar við fyrirspurn mbl.is.

Jafnframt hefur verið deilt um kröfur frá því í janúar.

Samkvæmt samkomulagi fær Hafnarfjarðarbær afhent hjúkrunarheimilið 28. júní 2019. „Gert er ráð fyrir tveimur vikum í úttektir vegna hjúkrunarheimilis þannig að gera má ráð fyrir að rekstraraðili fái 1.-3. hæð afhenta í kringum 15. júlí 2019,“ segir í svarinu en skil á lóð og fullkláruðu húsi er 1. ágúst.

Í janúar svaraði Hafnarfjarðarbær fyrirspurn mbl.is á þá leið að „verktaki telur sig getað skilað verkinu 15. júní næstkomandi.“ Jafnframt að „ekki hefur annað verið rætt hjá Hafnarfjarðarbæ en að freista þess að verktaki ljúki verkinu.“

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í …
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í nýbyggingunni við Sólvang í september 2018. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kröfur á hendur hvor annars

Þá er unnið að því að koma á samkomulagi við framkvæmdaaðila, Munck á Íslandi, vegna krafna fyrirtækisins á hendur Hafnarfjarðarbæjar og krafna bæjaryfirvalda á hendur Munck á Íslandi. Samkvæmt fundargerð bæjarráðs Hafnafjarðar hafa viðræður við verktaka staðið yfir frá því í janúar.

Fram kemur í svari Hafnarfjarðarbæjar að kröfur framkvæmdaaðila snúi að magnaukningu, viðbótaverki og aukaverki, en kröfur bæjarins snúi að samkomulagi um verklok þar sem krafist er dagsekta vegna tafa. „Ekki er hægt að svara strax til um upphæðir eða innihald samkomulags þar sem verið er að vinna að samkomulaginu þessa dagana,“ segir í svarinu.

Endanlegur kostnaður liggur ekki fyrir

Að svo stöddu er kostnaður bæjarins vegna framkvæmdanna metinn á 1,954 milljarða króna en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir að kostnaður yrði 1,898 milljarðar, er því kostnaður 2,8% umfram áætlun. Hins vegar er byggingarmagnið 4.492 fermetrar sem er umfram þá 3.900 til 4.200 fermetra sem áætlaðir voru.

Þar sem niðurstaða liggur ekki fyrir í sambandi við kröfurnar sem aðilar gera hvor á annan er ekki ljóst hver endanlegur kostnaður Hafnarfjarðarbæjar verður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert