Fékk sér Billie Eilish-tattú

Birta Líf gerði sér lítið fyrir og smellti tattú af …
Birta Líf gerði sér lítið fyrir og smellti tattú af Billie Eilish á vinstri öxlina. Það kostaði meira en 100 þúsund krónur. Ljósmynd/Aðsend

Birta nokkur Líf Bjarkadóttir fer ekki í launkofa með aðdáun sína á poppstjörnunni ungu Billie Eilish nema síður sé. Hún er komin með stærðarinnar húðflúr af söngkonunni á öxlina. Það kostaði meira en hundrað þúsund og tók meira en hálfan sólarhring að gera.

„Ég myndi segja að ég væri alla vega einn af helstu aðdáendum hennar hér á landi,“ segir Birta glöð í bragði í samtali við mbl.is, ánægð með nýja húðflúrið.

Tæpar tvær vikur eru síðan Birta fékk sér húðflúrið, það var sunnudaginn 2. júní, og mynd af því hefur þegar verið send á Billie sjálfa. Þá er að bíða og vona að hún taki við sér og sjái skeytið. „Það kemur í ljós hvort hún sér þetta. Auðvitað vil ég að hún geri það, það væri mjög gaman,“ segir Birta.

Birta og vinnufélaginn mestu aðdáendur Billie

Birta kynntist Billie fyrst í gegnum lagið Ocean Eyes, sem kom út seint árið 2016. „Ég hlustaði á það lag bara á vinsældalistum og pældi ekki sérstaklega í því hver var að syngja en í gegnum það kynntist ég henni,“ lýsir Birta.

„Svo fannst mér bara fyrstu lögin hennar geðveik. Ég fíla stílinn hennar, röddina, textana og svo er nýja platan hennar geðveikt töff,“ segir Birta.

Billie Eilish er fyrirmyndarstelpa að hennar mati. „Hún er svo töff karakter. Hún er bara eins og hún vill vera og svo er hún gullfalleg líka. Mér finnst hún bara geðveik týpa,“ segir Birta.

Öllum hnútum kunnug í hreinlætismálum

Birta vinnur sem sótthreinsitæknir á Landspítalanum og ásamt samstarfskonu sinni, Salnýju Björgu Emilsdóttur, þróaði hún með sér ákafan áhuga á Billie Eilish síðasta vetur og haust. Birta fær ekki betur séð en Salný sé sú eina sem veiti henni samkeppni í að vera harðasti aðdáandi söngkonunnar.

Birta í fríi áður en hún fékk sér tattúið. Á …
Birta í fríi áður en hún fékk sér tattúið. Á vinstri öxlinni má samt sjá eitt af 6 húðflúrunum sem hún hafði, áður en Billie Eilish kom til sögunnar. Ljósmynd/Aðsend

„Við vorum í allan vetur að hlusta á hana og við erum jafnhrifnar af henni,“ segir Birta. Ekki alveg jafnhrifnar þó, því Birta telur ekki að Salný muni ganga eins langt og hún og fá sér húðflúr.

Þegar húðflúr er annars vegar skal fyllstu varúðar gætt í hreinlætismálum og ekki kom þar að sök í tilfelli Birtu að hún er þaulvanur atvinnumaður í þeim efnum. Að auki segir hún þann sem gerði húðflúrið hafa staðið fagmannlega að málum.

Billie er sjöunda húðflúrið

Það var Oliver Thor á tattústofunni Apollo Ink á Laugavegi sem gerði portrettið af Billie á öxlina á Birtu. Húðflúrið er ansi mikilfenglegt; það þekur öxlina og nær nokkuð niður handlegginn. Fyrstu skrefin voru þau að Birtu datt þetta í hug og fann góða mynd af Billie og sendi hana á Oliver.

„Ég var með hugmynd að mynd og eitthvað í kringum hana. Ég lét hann fá myndina og hann tók við því og fór að útbúa sjálft húðflúrið,“ segir Birta. „Hann gaf sér góðan tíma í að kynna sér karakter hennar og bætti svo ýmsu við húðflúrið út frá því,“ segir hún og er hæstánægð með þjónustuna. Kórónan á Billie er þannig hugarsmíð tattúhöfundarins.

Að sögn Birtu fól hún hún tattúlistamanninum að teikna myndina …
Að sögn Birtu fól hún hún tattúlistamanninum að teikna myndina af Billie. Kórónan hennar er til að mynda hans hugarsmíð. Ljósmynd/Aðsend

Eins og segir kostaði verkið nokkurn pening, meira en 100.000 krónur, og tók rúma tólf tíma í vinnslu, þó með góðum pásum, segir Birta. „Þetta gekk mjög vel og þetta var ekkert það vont. Auðvitað var þetta smá aumt í fyrstu en þetta er fljótt að jafna sig á hendinni,“ segir Birta að lokum, enn og aftur heppin að hafa sóttvarnamál að atvinnu, og ekki er verra að hún býr að nokkurri reynslu í húðflúrsmálum: Billie er hennar sjöunda húðflúr.

mbl.is