Hefur verið á göngu síðan átta í gær

Einar á 50 kílómetra eftir og er í þyngdarvesti sem …
Einar á 50 kílómetra eftir og er í þyngdarvesti sem vegur 23 kg og þyngir gönguna talsvert. Inn á milli tekur hann æfingar. Ljósmynd/Aðsend

„Þessi ganga er táknræn, því hún er þrautaganga eins og krabbamein er, og hliðaræfingarnar lýsa vel hliðarverkefnum og aukaþrautum sem koma upp á þegar fólk er veikt af krabbameini,“ segir Einar Hansberg Árnason í samtali við mbl.is.

Hann hefur síðan klukkan átta í gærkvöldi gengið 50 kílómetra, með þyngdarbúnað á herðunum. Hann er hálfnaður og á 50 kílómetra eftir. Á tveggja klukkutíma fresti stöðvar hann gönguna og gerir stuttar æfingar, eins og 200 armbeygjur eða 300 hnébeygjur.

Hver ferð er 20 kílómetrar og þær verða fimm talsins, samtals 100 km. Einar gengur klyfjaður. Fyrstu ferðina fór hann með 27 kílóa sleða í eftirdragi og nú er hann í 23 kílóa þyngdarvesti.

Fyrstu 20 km fór Einar með 27 kílóa sleða í …
Fyrstu 20 km fór Einar með 27 kílóa sleða í eftirdragi. Síðan skipti hann yfir í álíka þungt þyngdarvesti. Gangan er samtals 100 km. Skjáskot/Instagram

Hann er að ganga til styrktar Krabbameinsfélagi Hvammstangalæknishéraðs og um leið í minningu frænda síns, sem lést úr krabbameini. Reikningsnúmer félagsins er 0159-05-400210 og kennitala 410695-2949. Tekið er við áheitum á reikninginn.

Í desember reri hann 500 kílómetra til styrktar Kristínu Sif. Það tók hann meira en 50 klukkustundir. „Þetta sækir alltaf á mann, einhver þjáning,“ segir Einar. „Það er erfitt meðan á því stendur en gríðarlega gefandi og lærdómsríkt eftir á.“

„Hann var ofurkall“

Á morgun eru liðin tvö ár frá því að frændi Einars, Sigurður Ágúst Guðbjörnsson, lést úr krabbameini rétt áður en hann varð sextugur. Sigurður Ágúst, Diddi eins og Einar kallar hann, bjó á Svalbarði, bóndabæ á Vatnsnesi. Og Einar Hansberg gengur til minningar um frænda sinn, fram og til baka fimm sinnum frá Hvammstanga til Svalbarðs og endar á Svalbarði.

Sigurður Ágúst Guðbjörnsson frændi Einars lést úr krabbameini rétt áður …
Sigurður Ágúst Guðbjörnsson frændi Einars lést úr krabbameini rétt áður en hann varð 60. Tvö ár eru liðin frá andláti hans. Morgunblaðið

Það er ágætisveður og Einari miðar vel áfram. „Mér líður bara fáránlega vel núna, ég er fullur af orku og vel stemmdur. Það var smá svartnætti í morgun en nú er það búið,“ segir hann.

Honum datt sjálfum í hug að ganga til minningar um frænda sinn á dánarafmæli hans. „Hann var ofurkall eins og maður segir, hann gat gert allt, lyft öllu og svoleiðis. Ég ákvað þess vegna að setja þetta saman og bjóða krabbameinsfélaginu að taka þátt,“ segir Einar.

Fjölskyldan hans er á staðnum með honum, ýmist á bíl eða að keyra með honum. „Ég gæti þetta aldrei nema vegna fjölskyldunnar minnar,“ segir Einar. „Þau eru hérna með mér og eru það alltaf þegar ég tek upp á einhverju svona.“

mbl.is