„Hér eru allir í skýjunum“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ásamt skipstjórum nýs Herjólfs.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ásamt skipstjórum nýs Herjólfs. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Formleg móttaka vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju var haldin í Friðarhöfn í Vestmannaeyjum í dag, en nýr Herjólfur lagðist að bryggju í gærkvöldi eftir langt og örlítið strangt ferðalag frá Póllandi.

„Þetta var í alla staði frábær dagur. Við fengum hér stútfulla hafnarstétt af fólki, athöfnin sjálf var frábær og hér eru allir í skýjunum,“ segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, í samtali við mbl.is.

Urðu góðfúslega við rigningarbeiðni

„Við fengum smá rigningu meðan á athöfninni stóð, en það var nú bara einhver hér á Suðurlandinu sem var búinn að biðja um að fá smá rigningarskúr til að bjarga gróðrinum og við urðum góðfúslega við því þótt við værum að fagna hér nýrri ferju.“

Áhugasamir fengu að fara um borð í skipið að skoða, en fyrir þá sem vilja gera það í meiri rólegheitum verður það opið gestum að nýju á milli klukkan 16 og 18 á morgun.

Nýr Herjólfur í höfninni í Vestmannaeyjum í dag.
Nýr Herjólfur í höfninni í Vestmannaeyjum í dag. mbl.is/Sigurður Bogi

Guðbjartur Ellert segir skipið leyna á sér, það virki ekki stórt að utan en nóg pláss sé þegar inn er komið. Gestum hafi litist vel á. „Það sem maður heyrði var að fólki fannst þetta stórt miðað við hvað það hafði ímyndað sér.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, voru við athöfnina í dag. Katrín nefndi ferjuna formlega og flutti Sigurður Ingi ávarp þar sem hann afhenti Vestmannaeyingum hina nýju ferju.  

mbl.is