Ríkisvæðingarstefna dauðans

Bæklunarlæknarnir Ragnar Jónsson og Ágúst Kárason eru afar ósáttur við …
Bæklunarlæknarnir Ragnar Jónsson og Ágúst Kárason eru afar ósáttur við heilbrigðisstefnuna sem samþykkt var nýlega. mbl.is/Ásdís

„Heilbrigðisráðherra virðist ekki skilja að reynsla sérfræðilækna er ómetanleg, hún verður ekki metin til fjár. Hún getur ekki skipulagt eða búið eitthvað kerfi í staðinn fyrir það. Utanspítalakerfi sem er rekið beint af sérfræðingum er afleiðing af því að spítalakerfið hefur ekki getað sinnt öllum,“ segir Ágúst Kárason, bæklunarlæknir og fulltrúi Íslands í Félagi evrópskra axla- og olnbogaskurðlækna.

„Þetta er búið að þróast í áratugi, en það er eins og það sé heilaþvottur í gangi um það að það þurfi allt að vera ríkisrekið inni á spítölunum en misskilningurinn er sá að sérfræðikerfið, sem hefur alltaf verið með samning við Sjúkratryggingar, er hluti af opinbera kerfinu. Ef það leggst niður mun það þýða það að þjónustan á spítölunum verður verri og það myndast alvöru tvöfalt kerfi,“ segir Ágúst. 

Hann hitti blaðamann ásamt kollega sínum, Ragnari Jónssyni bæklunarskurðlækni og þáverandi formanni Íslenska bæklunarlæknafélagsins og núverandi forseta Norrænu bæklunarskurðlækna samtaka til þess að ræða stöðuna sem upp er komin í þjóðfélaginu varðandi heilbrigðiskerfið en heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur beitt sér gegn nýliðun sérfræðilækna utan sjúkrahúsa og komið  í veg fyrir að sérfræðilæknar geti opnað stofu utan spítala.

Einkarekstur af hinu illa?

„Það er ekkert nýtt að það eigi að gjörbylta kerfinu; þetta er allt sama tuggan. Það er verið að finna upp hjólið aftur og aftur. Þessi þróun að færa þetta út í bæ varð án inngripa af ríkinu. Áður fyrr var nánast allt gert inn á spítölum en svo þróast það þannig að það myndaðist meira álag á sjúkrahúsin og þau gátu ekki sinnt smáaðgerðum. Það varð til þess að sérfræðingar björguðu hlutunum sjálfir og opnuðu klíníkur til þess að sinna því sem þurfti að sinna. Þetta var einkaframtak og einkarekstur en greitt af ríkinu og hluti af sjúklingum,“ segir Ragnar.

„Síðan hefur tæknin þróast þannig að það er hægt að gera meira á styttri tíma og utan spítalans. Það er búið að skoða þetta; hver aðgerð er ódýrari úti í bæ heldur en á spítölunum. Þetta var rannsakað fyrir löngu síðan. Enda ekkert skrítið! Hvers vegna á að taka skrúfur úr fæti inni á sjúkrahúsi, það er léleg nýtni á þeirri fjárfestingu. En það er bara prinsip, einkarekstur er af hinu illa og hann skal burt,“ segir Ragnar.

Japanska lestarítroðsluaðferðin

Í dag fá sérfræðilæknar á einkastofum um 500.000 heimsóknir á ári; bæði í aðgerðir og viðtöl og spyrja þeir Ragnar og Ágúst hvert þessir sjúklingar eigi að fara í framtíðinni.

„Hverjir eiga að vinna þetta hvar er aðstaðan, þekkingin og hver er kostnaðurinn? Er nóg pláss á göngudeildunum?“ spyr Ragnar.

Hvað teljiði að yfirvöld vilji gera við þessar 500.000 heimsóknir?

„Inn á sjúkrahúsin, punktur. Það verður notuð japanska lestarítroðsluaðferðin. Það er engin önnur leið,“ segir Ragnar. „Þetta er ríkisvæðingarstefna dauðans, þessi aðstaða er öll til hjá sérfræðingum utan spítalans.“ segir Ágúst

Lengjast þá ekki biðlistar?

„Það sjá allir nema þeir sem vinna í heilbrigðisráðuneytinu,“ segir Ragnar.

„Ég er búinn að fylgjast með umræðum um heilbrigðismál í mörg, mörg ár og ég safna greinum sem birtast í blöðum. Þetta er nákvæmlega sama sem er alltaf verið að tala um; sparnaður, skortur á rúmum, og að spítalinn kalli eftir skýrari stefnu. Hún er nú komin; allt sem er úti, fer inn á spítalann,“ segir Ragnar.

„Það þarf að viðurkenna þessi kerfi og láta þau vinna betur saman. Það er fólk sem skilur ekki læknisfræði sem er að skipuleggja hvernig framtíðin á að vera; það var ekki talað við lækna. Það er heilaþvottur í gangi að þetta utanspítalakerfi kerfi sé ekki gott og það er rangt. Það á að nota okkur til þess að bæta þjónustuna og bæta flæðið,“ segir Ágúst.

Fólkið sem gleymdist

Reynir Arngrímsson læknir og formaður Læknafélags Íslands segist hafa gert alvarlegar athugasemdir við heilbrigðisstefnu stjórnvalda þegar hún var í smíðum.
„Því miður virðist fátt eða ekkert af þeim hafa ratað inn í þingsályktunartillöguna sem var samþykkt á Alþingi á dögunum. Í fyrsta lagi gerðum við athugasemd við hvernig staðið var að gerð áætlunarinnar. Þetta var fyrst og fremst samtal ráðuneytisins við forstjóra heilbrigðisstofnana á landinu. Það var ekkert samráð haft við fagfélög starfsmanna í heilbrigðiskerfinu, ekkert samband við félög heilbrigðisfyrirtækja eða allan þann hóp sem vinnur sjálfstætt að heilbrigðisþjónustu. Þetta fannst okkur mjög sérkennileg vinnubrögð,“ segir Reynir.

Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, segir heilbrigðisráðherra ekki hafa haft …
Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, segir heilbrigðisráðherra ekki hafa haft samráð við lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk þegar ný heilbrigðistefna var í smíðum.„Það voru haldnir kynningarfundir af hálfu ráðuneytisins og óskað eftir athugasemdum sem við tókum mjög alvarlega. Við unnum hér í stórum vinnuhópum í læknafélaginu á síðasta aðalfundi og voru hátt í sjötíu læknar sem settust yfir skýrsluna. Við sáum margt jákvætt í henni og töldum mikilvægt að það væri mótuð heilbrigðisstefna. En það vantaði mjög margt í stefnuna sem við bentum á. Það var eins og allt það starfsfólk sem vinnur sjálfstætt hafi gleymst. Ég get nefnt SÁÁ. Hver er heilbrigðisstefnan varðandi samskipti við SÁÁ og meðferð á fíknisjúkdómum til dæmis? Reykjalundur er annað dæmi, einnig heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins, sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar, sjálfstætt starfandi sálfræðingar og sjálfstætt starfandi læknar. Það var bara eins og allt þetta fólk væri ekki til.“

Ekkert um réttindi sjúklinga

„Það er ekkert um réttindi sjúklinga í stefnunni. Það er ekkert um sjúkratryggingaréttinn. Við höfum séð að það er deilt um hann núna vegna langra biðlista. Ætti ekki fé að fylgja sjúklingi frekar en stofnunum? Í dag er hægt að fá fé til að fara til einkarekinnar stofnunar erlendis en ekki einkarekinna stofnana hér heima. Það vantar allt um sjúklingaréttinn. Við höfðum bent á að við vildum fá umboðsmann sjúklinga, sem við höfðum reyndar áður bent á. Við lögðum til að stofnuð yrði regnhlífarsamtök sjúklingafélaga og að ríkið tryggði því rekstrarlegan og faglegan grunn. Það var ekkert hlustað á þetta. Það er mjög margt sem við hefðum viljað sjá inn í stefnu sem verið er að móta,“ segir hann.
„Það stendur í heilbrigðisstefnunni að í gildi verði langtíma samningar við erlend háskólasjúkrahús. Það er gott og blessað en hvað um langtímasamninga við þjónustuveitendur hér á Íslandi sem eru ekki ríkisreknir. Af hverju eru ekki langtímasamningar við SÁÁ? Við Reykjalund? Og sjálfstætt starfandi lækna. Það virðist vera hægt að semja til lengri tíma við einhverja aðila í útlöndum en það er ekki hægt að gera það hér innanlands.“

Hver eru viðbrögð lækna við þessari nýju heilbrigðisstefnu?
„Það kemur ekki á óvart að það hafi ekki náðst fram breytingar. Það er ekki hlustað á það sem við höfum verið að gera. Menn bíða núna eftir aðgerðaáætluninni. Eitt er stefna og annað að útfæra hana. Við bíðum eftir að læknar verði kallaðir að borðinu um hvernig eigi að útfæra stefnuna. Það hefur ekki orðið ennþá. Aðgerðaáætlunin skiptir í raun meira máli en stefnan og þar vonumst við til þess að fá að taka á þeim agnúum sem við höfum bent á. Við bíðum eftir símtali úr ráðuneytinu.“

Ítarleg viðtöl við Ragnar, Ágúst og Reyni eru í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »