Um 40 mál bókuð hjá lögreglunni

mbl.is/Eggert

Alls var 41 mál bókað hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá miðnætti. Tilkynnt var um slagsmál í Veltusundi í Reykjavík upp úr klukkan fjögur í nótt og um klukkutíma síðar var maður handtekinn fyrir að fylgja ekki fyrirmælum lögreglu. Hann var ofurölvi. Maðurinn var vistaður í fangageymslu þangað til af honum rennur.

Tveir voru einnig handteknir í miðbæ Reykjavíkur fyrir vörslu fíkniefna.

Um hálfþrjúleytið var ökumaður bifreiðar handtekinn í miðbæ Reykjavíkur grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og var hann látinn laus að lokinni sýnatöku, að því er segir í dagbók lögreglunnar.

Í Hafnarfirði var tilkynnt um brunalykt laust fyrir klukkan eitt í nótt. Upptök fundust ekki en mat lögreglu er að þarna hefði verið um miðnæturgrill að ræða. Ekkert var aðhafst frekar.

Um fjögurleytið var ökumaður bifreiðar handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Upp úr miðnætti var bifreið stöðvuð við hefðbundið eftirlit á Vesturlandsvegi. Ökumaður er grunaður um vörslu fíkniefna.

mbl.is