86 mál skráð hjá lögreglunni

Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í …
Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt. mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt því alls skráði hún 86 mál á þessu tímabili. Í öllum hverfum þurftu lögreglumenn að sinna mörgum kvörtunum um hávaða í tónlist úr heimahúsum, hávaða vegna framkvæmda á vinnustöðum og frá skemmtistöðum.

Upp úr klukkan 20 í gærkvöldi hafði lögreglan afskipti af manni í annarlegu ástandi. Tilkynnti hafði verið um manninn að skemma tré og staura við grunnskóla í hverfi 108. Teknar voru niður upplýsingar um hann og verður hann kærður fyrir eignaspjöll og brot á lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar.

Réðst á dyravörð 

Kona var handtekin um hálffjögurleytið í nótt grunuð um að hafa ráðist á dyravörð við skemmtistað í miðbænum. Hún neitaði staðfastlega að segja til nafns og vildi ekki sýna skilríki sín. Hún var vistuð í fangageymslu vegna málsins.

Lögreglumenn höfðu um hálfníuleytið í gærkvöldi afskipti af konu sem hafði ekki borgað fyrir leigubíl sem hún notaði og fór frá án þess að gera upp reikninginn. Hún verður kærð fyrir fjársvik.

Um sjöleytið í gærkvöldi sinntu lögreglumenn umferðaróhappi í Garðabæ þar sem ökumaður bifreiðar ók á grindverk. Ekki urðu slys á fólki og þurfti að fjarlægja bifreiðina með dráttarvél.

Þrír af 120 handteknir

Frá klukkan 1:10 til 3:39 í nótt voru lögreglumenn með umferðarpóst á Hafnarfjarðarvegi í hverfi 210 þar sem kannað var með ástand ökumanna og ökuréttindi þeirra. Afskipti voru höfð af 120 ökumönnum og voru þrír af þeim handteknir, grunaðir um ölvun við akstur bifreiðar. Voru þeir allir látnir lausir eftir sýnatöku á lögreglustöð.

Frá klukkan 21 til 23 í gærkvöldi voru lögreglumenn úr umferðardeild lögreglunnar við hraðamælingar á Suðurlandsvegi á Sandskeiði. Fjórtán ökumenn voru stöðvaðir vegna hraðaksturs á umræddu tímabili.

Einnig var eitthvað um að ökumenn voru stöðvaðir vegna aksturs undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

mbl.is