Costco sýknað af bótakröfu vegna tjóns

Costco hafnaði öllum málsástæðum og sagði verslunarhúsnæðið fullnægja þeim kröfum …
Costco hafnaði öllum málsástæðum og sagði verslunarhúsnæðið fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til slíks húsnæðis í mannvirkjalögum og byggingarreglugerðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað Costco af kröfu konu um bætur vegna innkaupakerru sem rann á bíl hennar framan við verslunina í Garðabæ. Fór konan fram á rúmar 262 þúsund krónur í bætur vegna viðgerðar.

Atvikið átti sér stað 3. maí 2018 þegar konan ók framhjá inngangi verslunarinnar þegar innkaupakerra eða tvær runnu á bifreið hennar og ollu skemmdum. Hún fyllti út eyðublað verslunarinnar á vettvangi og sendi bótakröfu í ágústmánuði, sem ítrekuð var í september en ekki tókust sættir í málinu.

Konan taldi bótaskyldu verslunarinnar ótvíræða vegna halla framan við verslunina og engin fyrirstaða sem komi í veg fyrir að kerrur, sem séu mun stærri og þyngri en gerist í verslunum hér á landi, geti runnið út á bílaplanið.

Costco hafnaði öllum málsástæðum og sagði verslunarhúsnæðið fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til slíks húsnæðis í mannvirkjalögum og byggingarreglugerðum.

Héraðsdómur hafnar kröfum konunnar en í dómnum segir að fallast megi á það með stefnanda að almennt megi gera strangar kröfur við mat á saknæmi til eigenda eða umráðamanna verslana um öryggi viðskiptavina. Hins vegar hafi stefnandi ekki gert til sönnunar að tjónið hafi mátt rekja til saknæmrar háttsemi starfsmanns stefnda og ekki sé hægt að fallast á að tjónið verði rakið til vanbúnaðar, vanrækslu eða óforsvaranlegs frágangs við verslun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert