Varðeldur skapaði stórhættu í Selskógi

Frá slökkviliðsæfingunni í Skorradal.
Frá slökkviliðsæfingunni í Skorradal. Ljósmyndari/Pétur Davíðsson

„Það er mjög alvarlegt að gera þetta og við erum að skoða málið. Þetta er inni í skógi og það er tilræði við almannahagsmuni að gera svona,“ segir Þórður Sigurðsson, varaslökkviliðsstjóri í Borgarbyggð, í samtali við mbl.is. Hann staðfestir að eldur hafi verið kveiktur á tjaldsvæði í Selskógi í nótt.

Vísir greindi frá því fyrir stuttu að varðeldur hefði verið kveiktur á tveimur stöðum í Skorradal, annars vegar á fjöruborði við Skorradalsvatn og hins vegar á tjaldsvæðinu. Það sýni myndir á samfélagsmiðlum. Í samtali við mbl.is segir Þórður hins vegar að ekki hafi verið um að ræða reyk frá varðeldi í fjörunni við Skorradalsvatn heldur hafi hitaveitulögn farið í sundur þar og gefið frá sér reyk. Hann staðfestir aftur á móti að varðeldur hafi verið kveiktur á tjaldsvæðinu í Selskógi.

Þórður var á tjaldsvæðinu ásamt lögreglu þegar mbl.is náði tali af honum og sagði að búið væri að kanna málið. „Þetta voru ungir krakkar og þetta var bara óvitaskapur. Það var fólk þarna í kring og þau bentu þeim á að þetta væri ekki í lagi og eldurinn var slökktur strax í kjölfarið,“ sagði hann. Hann tók þó fram atvikið væri alvarlegt enda þurfi lítið til að eldurinn breiðist út og valdi gróðureldum þar sem allur gróður sé skraufþurr eftir mikla þurrka á svæðinu.

Greint var frá því fyrr í vikunni að vegna langvarandi þurrka hafi óvissustigi almannavarna verið lýst yfir á Vesturlandi. Slökkvistöðvar í Borgarnesi, Hvanneyri, Reykholti og Bifröst tóku þátt í sameiginlegri æfingu vegna ástandsins á föstudag og voru slökkviliðsmenn settir á aukabakvakt um helgina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert