Flaug sigurbílnum sjálfur heim

Guðmundur segist hugsa afar vel um bílinn, hann sé í …
Guðmundur segist hugsa afar vel um bílinn, hann sé í toppstandi og nánast eins og nýr. mbl.is/Þorgeir

Guðmundur Hilmarsson, eigandi bifreiðar af gerðinni Ford Skyliner af árgerð 1957 sem hreppti verðlaun sem áhugaverðasti bíllinn á hátíðarbílasýningu Bíladaga Orkunnar, flaug bílnum sjálfur heim frá Bandaríkjunum árið 1996.

„Ég er búinn að eiga hann í 30 ár. Hann kom til landsins 1996 og er búinn að vera hér síðan, aðallega í Reykjavík, en ég keypti hann í Ameríku og var með hann þar og ferðaðist aðeins á honum,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.

„Þess má til gamans geta að ég flaug með hann sjálfur heim, var flugmaður hjá Cargolux og bíllinn var bara settur fremstur í nefið á vélinni og ég flaug honum svoleiðis heim frá New York.“

Guðmundur flaug Fordinum sjálfur heim 1996.
Guðmundur flaug Fordinum sjálfur heim 1996. mbl.is/Þorgeir

Guðmundur segist hugsa afar vel um bílinn, hann sé í toppstandi og nánast eins og nýr. „Ég er einmitt að koma frá honum núna, ég þurfti að strjúka honum sérstaklega af því ég keyrði hann heim í rigningu og þurfti  að þurrka af honum. Hann fær extra klapp og extra bón fyrir að vinna bikar,“ segir hann léttur í bragði að lokum.

Með hátíðarbílasýningunni er botninn sleginn í Bíladaga á Akureyri, sem fréttaritari mbl.is á staðnum, Þorgeir Baldursson, hefur fylgst vel með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert