Fyrstu BA-próf í lögreglufræðum

Föngulegur hópur kandídata í lögreglu- og löggæslufræðum við útskrift frá …
Föngulegur hópur kandídata í lögreglu- og löggæslufræðum við útskrift frá Háskólanum á Akureyri á laugardaginn. BA-stúdentarnir sjö eru þó ekki á þessari mynd. Lengst til hægri stendur Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra og landskunn laxveiðikona, og brosir í kampinn yfir framvarðasveit íslenskrar löggæslu. Fyrir aftan Höllu er Ólafur Örn Bragason, forstöðumaður MSL. Ljósmynd/Andy Hill

„Fjörutíu og einn útskrifaðist úr diplómanámi í lögreglufræðum sem er tveggja ára nám. Verklegi hlutinn fer fram hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar, MSL. Tveir starfandi lögreglumenn luku einnig diplómanámi í lögreglufræði, en starfandi lögreglumenn fá nám sitt úr Lögregluskóla ríkisins metið að hluta. Sjö luku svo BA-prófi í lögreglufræðum sem gerist nú í fyrsta sinn.“ Þetta segir Eyrún Eyþórsdóttir, lögreglukona, aðjúnkt í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri og að auki lektor í sömu fræðum frá og með 1. ágúst, í samtali við mbl.is.

Umræðuefnið er tímamótaútskrift frá Háskólanum á Akureyri á laugardaginn þar sem fyrstu kandídatar á Íslandi luku BA-prófi í lögreglu- og löggæslufræðum á vordögum og voru útskrifaðir með viðhöfn frá skólanum. Þarna er um að ræða annan árgang brautskráðra nema með diplómapróf fyrir verðandi lögreglumenn eftir að lögreglunám var fært upp á háskólastig á Íslandi árið 2016.

Stækkar sjóndeildarhringinn

„Rauði þráðurinn er að læra að tryggja öryggi borgaranna og vinna gegn afbrotum,“ er meðal þess sem segir um lögreglunámið á heimasíðu Háskólans á Akureyri. Hvað telur Eyrún að helst hafi unnist með því að færa slíkt nám frá Lögregluskóla ríkisins upp á háskólastig?

„Ég geri nú bara orð eins af starfandi lögreglumönnunum, sem eru í námi hjá okkur, að mínum sem segir að fyrst og fremst skapi það stærri sjóndeildarhring, það er að segja að námið er akademískt og hugmyndir þar með krufnar og unnið með sjónarmið og fleira,“ útskýrir Eyrún og bætir því við að bóklegur hluti lögreglunámsins sé nú mun viðameiri og dýptin um leið meiri sem skili gagnrýninni hugsun og þekkingu á fyrirbærum á borð við eðli afbrota, ólík samskiptaform, fíknisjúkdóma og geðheilsu auk þekkingar á minnihlutahópum.

Eyrún segir sókn að náminu hafa verið mikla en aðeins séu 50 kandídatar í einu teknir inn í starfsnámið. „Inntakan byggist á einkunnum þriggja námskeiða á haustönn fyrsta vetrar auk þrekprófs, sálfræðiprófs og viðtals hjá Mennta- og starfsþróunarsetrinu. Þú þarft þar af leiðandi að vera nokkuð góður jafnt á bókina, í þreki og í hausnum,“ segir aðjúnktinn og skefur hvergi af.

Frá reynslu til rannsókna

Eyrún segir námið byggja að meginstefnu á því sem kallast „evidence based policing“. Er þar um að ræða áherslu á að færa aðferðir lögreglustarfa frá því að byggja fyrst og fremst á starfsreynslu og tilfinningum yfir í að byggja á rannsóknum.

Hér er blaðamanni nauðugur einn kostur að spyrja Eyrúnu hvort slík stefna sé ekki að einhverju leyti umdeild og hvað gömlu brýnin, sem eru búin að vera í löggunni í 30 ár, segi um að rannsóknir taki við af starfsreynslunni.

„Nei, ég held að þetta sé ekki umdeilt þannig séð,“ svarar aðjúnktinn að bragði. „Þarna er auðvitað ekki verið að útiloka reynslu enda er hún mjög mikilvæg, frekar er verið að koma í veg fyrir að byggt sé á tilfinningum fólks um hvernig hlutirnir eru sem svo kannski reynist ekki alveg á rökum reist,“ segir Eyrún. Nú til dags kveður hún rannsóknir vera leiðarvísi lögreglu víða um heim, til dæmis um atriði á borð við hvar hentugast sé að hafa mannskap og hvernig skipa skuli bjargráðum (e. resources) svo best nýtist. „Akademískt lögreglunám er kannski einmitt til þess fallið að byggja undir þetta,“ segir Eyrún.

Guðmundur Ævar Oddsson, dósent og brautarstjóri lögreglunáms Háskólans á Akureyri, …
Guðmundur Ævar Oddsson, dósent og brautarstjóri lögreglunáms Háskólans á Akureyri, ávarpar útskriftarnema við hátíðlega athöfn á laugardaginn. Ljósmynd/Andy Hill

Hún segir aðstandendur lögreglunáms Háskólans á Akureyri hafa leitað mjög í smiðju norska lögregluháskólans við skipan námsins. „Við höfum fengið þrjá sérfræðinga frá norska skólanum hingað, einn þeirra er sérfræðingur í inntöku nema og hinir tveir í námskrárbreytingum norska skólans,“ segir Eyrún frá og nefnir einnig heimsóknir fulltrúa HA til Lögregluháskólans í Ósló.

„Við fundum svo reglulega með hinum lögregluskólunum á Norðurlöndunum, ég var til dæmis á fundi í danska lögregluskólanum í síðustu viku þar sem umræðuefnið var hvernig heppilegast væri að tengja saman bóklegt og verklegt lögreglunám,“ segir Eyrún Eyþórsdóttir að lokum, aðjúnkt og verðandi lektor í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, sátt við sinn hlut í sjö íslenskum löggæslufræðingum með BA-próf í sínu fagi.

mbl.is