Hættulegar aðstæður við Vífilsstaðavatn

Ábendingum um slysahættu verður komið til vegahaldara.
Ábendingum um slysahættu verður komið til vegahaldara. mbl.is/Árni Sæberg

Töluverð möl hefur safnast saman á veginum við Vífilsstaðavatn og stefnir hún hjólreiða- og bifhjólamönnum í hættu. Í samtali við mbl.is segist Árni Friðleifsson, hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hafa fengið ábendingu þess efnis í dag.

Henni verði komið til veghaldara, sem sennilega sé annaðhvort Vegagerðin eða Garðabær. Af myndum að dæma virðist sem mölin komi úr viðgerðum á hjólförum, sem ráðist hafi verið í á dögunum, og segir Árni slíkar viðgerðir geta verið hættulegar hjólreiðafólki og bifhjólamönnum.

Mikið sé um hjólreiðar á svæðinu og því nauðsynlegt að ráðast í úrbætur. Árni segir að lögreglan fái reglulega ábendingar um vafasamar viðgerðir sem þessa, og sé þeim alltaf komið til skila til veghaldara sem bregðist jafnan vel við ábendingum.

Mölin alræmda við Heiðmerkurafleggjarann.
Mölin alræmda við Heiðmerkurafleggjarann. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is