Alþingi eftirsótt á þjóðhátíðardegi

Fjölmargir lögðu leið sína í Alþingishúsið 17. júní.
Fjölmargir lögðu leið sína í Alþingishúsið 17. júní. Vefur Alþingis

Yfir þrjú þúsund gestir heimsóttu Alþingishúsið í gær á 75 ára afmæli lýðveldisins en í dag verður þingfundi framhaldið og verður meðal annars rætt um úttekt á aðkomu Samgöngustofu og Isavia ohf. að starfsemi og rekstri WOW air.

Alls komu 3.160 gestir í Alþingishúsið þegar þar var opið hús í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins 17. júní. Stöðugur straumur var í gegnum húsið allt frá því það var opnað kl. 14 og þar til lokað var kl. 18. Þingmenn jafnt sem starfsfólk skrifstofu stóðu vaktina og kynntu fyrir áhugasömum gestum sögu Alþingishússins og starfsemi þingsins.

Myndir á vef Alþingis

Þingfundur hefst klukkan 13:30 og hefst hann á kosningu eins aðalmanns í stað Ragnhildar Helgadóttur og eins varamanns í stað Ingibjargar Pálmadóttur í dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara.

Annað mál á dagskrá er beiðni Helgu Völu Helgadóttur um úttekt á aðkomu Samgöngustofu og Isavia ohf. að starfsemi og rekstri WOW air hf. í aðdraganda gjaldþrots félagsins.

Um 3200 manns heimsóttu opið hús í Stjórnarráðinu sem var hluti sérstakrar hátíðardagskrár í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins í gær. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, stóð vaktina hluta dagsins og tók á móti gestum inni á skrifstofu sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert