Fyrsta skrefið í átt að „drauminum“

Katrín Jakobsdóttir, Lilja Alfreðsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir virða …
Katrín Jakobsdóttir, Lilja Alfreðsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir virða fyrir sér grjót sem eitt sinn var koltvísýringur við undirritun yfirlýsingunnar. mbl.is/​Hari

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir yfirlýsingu stjórnvalda, fyrirtækja í stóriðju og Orkuveitu Reykjavíkur vekja með sér bjartsýni og vera mikilvægt skref í átt að kolefnishlutleysi Íslands. Hún segir valið á milli losunarkvóta eða kolefnisjöfnunar vera að hverfa, enda sé kostnaðurinn sá sami og tíminn til aðgerða í loftlagsmálum naumur.

„Yfirlýsingin snýst um það að við tökum höndum saman með stóriðjunni og Orkuveitu Reykjavíkur og forgangsröðum fjármunum í rannsóknir og tækniþróun, meðal annars í þágu loftlagsmála. Við viljum þá leggja okkar að mörkum svo að það megi flýta þeirri nauðsynlegu tækniþróun sem þarf að fara fram þannig að við komumst að því hvort að stóriðjan geti nýtt sér þessa tækni sem OR hefur verið að kynna,“ segir Katrín.

Risastórt skref af hálfu stóriðjunnar

Sam­kvæmt vilja­yf­ir­lýs­ing­unni verður rann­sakað til hlít­ar hvort að Car­bFix, eða gas í grjót aðferðin, geti orðið tækni­lega og fjár­hags­lega raun­hæf­ur kost­ur til þess að draga úr los­un kolt­ví­sýr­ings frá stóriðju á ís­landi. Þá munu fyr­ir­tæk­in sem að yf­ir­lýs­ing­unni standa, leita leiða til að verða kol­efn­is­hlut­laus árið 2040, líkt og Hell­is­heiðar­virkj­un mun verða fyrst allra virkj­ana í heimi á næstu árum, en þar hefur CarbFix aðferðinni verið beitt til kolefnisjöfnunar síðastliðin fimm ár.

„Við vitum að það eru ákveðnar spurningar sem þarf að svara, til dæmis hvað varðar gæði jarðvegs og annað, en við teljum að þetta sé auðvitað risastórt skref af hálfu stóriðjunnar og stjórnvalda til þess að halda áfram á þessari leið til kolefnishlutleysis. Við viljum í raun og veru setja miklu meiri kraft í að ýta þessari þróun áfram. Tíminn er naumur,“ segir Katrín.

Snýst fyrst og fremst um forgangsröðun 

Aðspurð segir Katrín verkefnið ekki fela í sér aukinn kostnað fyrir stjórnvöld heldur fremur snúast um forgangsröðun og að loftlagsváin sé þar eðli máls samkvæmt ofarlega á lista.

„Þetta snýst frekar um forgangsröðun fjármuna en aukningu og ég held að það sé góður samhljómur um það. Við höfum til að mynda verið að ræða hvaða samfélagslegu áskoranir við viljum leggja áherslu á þegar við erum að tala um okkar rannsóknarfé og þar eru loftlagsmálin mjög ofarlega, ásamt auðvitað tungutækninni. Svo kallar þetta einnig á samstarf á alþjóðavettvangi. Með því að fullreyna þessa aðferð finnst okkur mikilvægt að við vinnum að því erlendis að þetta verði metið inn í þessi losunarmál.“

Skrifað undir yfirlýsinguna.
Skrifað undir yfirlýsinguna. mbl.is/​Hari

Katrín tekur undir orð Bjarna Bjarnasonar, forstjóra OR, um að það sé borðliggjandi fyrir fyrirtæki í stóriðju að leggja frekar fjármagn í kolefnisjöfnun og -bindingu en losunarkvóta, sérstaklega þar sem CarbFix aðferðin er afar hagkvæm og kostar ekki meira en losunarkvóti fyrir hvert tonn af koltvísýring.

„Mér finnst það mjög góð spurning ef þú getur valið um að kaupa þér losunarkvóta eða nýta sama fé í að draga úr mengun, þá auðvitað dregur þú úr mengun og í rauninni fer að verða ekkert val um annað. Þetta er allt sama andrúmsloftið.“

Draumurinn að verða kolefnishlutlaus 

Við undirritun yfirlýsingarinnar sagði Bjarni að Hellisheiðarvirkjun yrði á næstu árum fyrsta jarðhitavirkjun í heimi til að kolefnisjafna sig að fullu og verða alveg sporlaus. Katrín segir það að sjálfsögðu vera æðsta takmarkið að stóriðjan öll verði kolefnishlutlaus árið 2040, en tekur undir orð Bjarna um að mikilvægt sé að taka eitt skref í einu og að yfirlýsingin í dag sé með sanni stórt og jákvætt skref.

„Það er draumur, og það er ennþá draumurinn. En til að byrja með er ég ánægð með þennan áhuga atvinnulífsins úr öllum áttum á að koma inn í þetta verkefni af fullum krafti.“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindarráðherra, tekur undir mikilvægi yfirlýsingarinnar í Facebook-færslu sinni í dag, en hann var á meðal þeirra ráðherra sem undirrituðu yfirlýsinguna fyrir hönd stjórnvalda.

Segir Guðmundur það vera lykilatriði að fá fyrirtækin sem losi mest af gróðurhúsalofttegundum hér á landi með stjórnvöldum í lið gegn loftlagsvánni ef markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland eigi að nást fyrir árið 2040.

„Í dag tókum við fyrsta skrefið á þeirri vegferð,“ sagði Guðmundur í færslu sinni. 


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert