Illa bitnir hafa framvísað lyfseðlum

Lúsmýið hefur fært sig um set og verður nú vart …
Lúsmýið hefur fært sig um set og verður nú vart á Vesturlandi og á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert

Nokkur dæmi eru um að viðskiptavinir Lyfju í Lágmúla hafi framvísað lyfseðlum vegna mjög slæmra lúsmýsbita að sögn Borghildar Eiríksdóttur, lyfjafræðings í Lyfju. „Þá hefur fólk verið búið að fara til læknis og fá sterkari sterakrem og sterkari ofnæmistöflur. Illa bitin manneskja fær satt að segja ekki mikið út úr því sem selt er í lausasölu,“ segir hún, en ráðlagt er að bera sterakrem á bit til að bregðast við bólgum og kláða.

Lúsmý hefur á undanförnum dögum gert vart við sig á Vesturlandi og á höfuðborgarsvæðinu og margir hafa leitað hjálpar í apótekum vegna bita. Borghildur segir að starfsfólk Lyfju finni nú í fyrsta sinn í sumar fyrir auknum fjölda viðskiptavina sem hafi verið bitnir af lúsmýi.

„Mér finnst líklegt að þetta fólk hafi bara verið úti í góða veðrinu. Við höfum fundið fyrir þessu síðustu sumur, en ekki jafn mikið og núna. Það gæti kannski stafað af því að sumarið núna sé betra en síðasta sumar,“ segir hún.

Tóku upp nýja sendingu í morgun

Eðli máls samkvæmt gengur á úrvalið í apótekum þegar margir leita þangað vegna sömu vandamála.

„Við erum búin að birgja okkur upp af öllum lyfjum sem við getum,“ segir Borghildur, en Lyfja þurfti í morgun að bregðast við auknum fjölda fyrirspurna um lyf og annað vegna lúsmýsbita. „Við brugðumst strax við og fengum flýtisendingu af flugnafælum og sendingu í morgun með lyfjum,“ segir hún.

„Það hefur mikið verið spurt um þetta í dag og margir komu áður en við tókum upp sendinguna í morgun. Við sögðum þeim að koma síðar í dag. Ég giska á að flestir séu komnir aftur, það er ábyggilega mjög óþægilegt að vera með bit,“ segir hún. „Síðan erum við með flugnafælur og svo er talað um að flugurnar forðist lyktina af [smyrslinu] Tiger Balm. Ég held það sé reyndar búið hjá okkur. Það er mikið notað við íþróttameiðslum, en það er sterk lykt af því,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert