„Lúsmýið er komið á Skagann“

Margar vörur kláruðust í Apóteki Vesturlands um helgina þegar fólk …
Margar vörur kláruðust í Apóteki Vesturlands um helgina þegar fólk leitaði þangað vegna lúsmýs. mbl.is/Eggert

Lúsmýið er komið á Skagann að sögn Söndru Steingrímsdóttur, lyfjafræðings í Apóteki Vesturlands á Akranesi, en þangað leituðu fjölmargir um helgina eftir að hafa verið bitnir af lúsmýi eða til að fyrirbyggja bit.

Nú virðist sem lúsmýið sé komið til að vera á Vesturlandi, en þess hefur orðið vart á Suðurlandi um nokkurt skeið. Töluvert var um lúsmý við Akranes á síðasta ári líka, en um liðna helgi lét lúsmýið í fyrsta sinn verulega á sér kræla á þeim slóðum í sumar.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í morgun að aldrei hafi verið jafnmik­il ­spurn á Suður­landi eft­ir flugna­fæl­um og lyfj­um við bit­um og nú. Þá hefur orðið vart við lúsmý á höfuðborgarsvæðinu í auknum mæli.

Margar vörur kláruðust um helgina

Líklega hafa margir notið liðinnar helgar í sumarbústöðum nærri Akranesi, en Sandra segir að bæði heimafólk, útilegufólk og aðkomufólk í sumarbústöðum hafi leitað bjarga við lúsmýinu í Apóteki Vesturlands. „Það var mikið að gera í þessari deild,“ segir Sandra, en margar vörur til að fyrirbyggja bit og bregðast við því kláruðust í apótekinu um helgina. „Maður heyrir að mýið sé að færa sig vestar. Það er komið á Skagann, það er alveg ljóst,“ segir hún.

„Ég myndi ekki segja að þessar vörur væru uppseldar, en það var samt margt sem kláraðist um helgina, t.d. ýmiss konar kláðastillandi krem og „spray“ sem er notað til að fyrirbyggja bit og meðhöndla það,“ segir hún. 

Birgja sig upp í vikunni

Sandra segir að mikið úrval sé af vörum til að fyrirbyggja bit eða eiga við bólgur og kláða.

„Það eru til alls kyns vörur til að fyrirbyggja bit, hvort sem þú ert barn eða fullorðinn. Það er um að gera að kíkja við og finna þá réttu,“ segir hún. „Ef fólk er illa bitið, þá er hægt að taka inn ofnæmistöflu og nota milt sterakrem til að minnka kláða og bólgur,“ segir Sandra. Þessar vörur fást keyptar án framvísunar lyfseðils.

Spurð hvernig vikan og næsta helgi líti út í þessu tilliti segir hún að apótekið birgi sig nú upp af vörum til þess að eiga við mýið.

mbl.is