„Maður á vissan hátt saknar blessaðs stríðsins“

Sigmundur Davíð formaður Miðflokksins segir svigrúm hafa skapast til að …
Sigmundur Davíð formaður Miðflokksins segir svigrúm hafa skapast til að endurskoða orkupakkann. Hann er búinn að standa í málþófi í margar vikur. Hann þekkir báðar hliðar þess ferlis, „hafandi haft vinstrimenn í stjórnarandstöðu“ sjálfur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Einhvern tímann heyrði ég sagt, og ég veit ekki hvort ég fari alveg rétt með, að málþóf væri sálin í bandarísku öldungadeildinni, án þess að ég sé að segja að þetta hafi þannig séð endilega verið málþóf hjá okkur. En það er árþúsunda hefð fyrir því að í þingstörfum hafi menn frelsi til að tjá sig lengi og ég myndi segja að í þessu tilviki hafi það skilað heilmiklum árangri,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins í samtali við mbl.is í kvöld.

Sigmundur segir að ekki sé annað hægt en að gleðjast yfir þeirri niðurstöðu í þinglokasamningi flokkanna á Alþingi, að til standi að gefa svigrúm til að „skoða þetta orkupakkamál betur“. Það svigrúm verði nýtt.

Fram kom hjá mbl.is fyrr í kvöld, að afgreiðslu orkupakkamálsins yrði frestað fram í lok ágúst, samkvæmt nýundirrituðum þinglokasamningi. Greidd verða atkvæði um orkupakkamálið á sérstökum framhaldsfundi þessa löggjafarþings 2. september 2019.

„Mér líður ágætlega en alltaf þegar niðurstaða er komin eftir að mikið hefur gengið á eru blendnar tilfinningar. Maður á vissan hátt saknar blessaðs stríðsins,“ segir Sigmundur hýr í bragði, á vissan hátt sigri hrósandi. Orkupakkanum var frestað.

Hefur sjálfur haft vinstrimenn í stjórnarandstöðu

Umræður Miðflokksmanna um þriðja orkupakkann slógu hvert lengdarmet á eftir öðru. Bæði er umræðan sú lengsta sem átt hefur verið um einstakt mál á þinginu, næst á eftir kemur Icesave 2010, og svo slógu Miðflokksmenn met í lengd einstakra þingfunda. Og slógu svo síðan eigin met.

Spurður hvort hann hefði verið eins sáttur með þá ítarlegu þinglegu meðferð sem orkupakkinn hefur fengið ef hann væri sjálfur í ríkisstjórn, kveðst Sigmundur hafa reynslu af hvoru tveggja. „Hafandi haft vinstrimenn í stjórnarandstöðu sem þurfa nú stundum að tjá sig mjög mikið um mál eins og þeirra er háttur, var það bara eitthvað sem maður gerði ráð fyrir að fylgdi þessu,“ segir Sigmundur. „Við létum nú samt ekki þingfundi standa hvað eftir annað fram á morgun næsta dag svo að allt leystist það nú á endanum,“ segir hann.

Sigmundur er ánægður með árangurinn en kveðst ekki hafa gert sérstakt ráð fyrir að hegðun þeirra þingmanna myndi afla Miðflokknum aukinna vinsælda, í það minnsta ekki svo á sæi í dægursveiflum fylgisins. „Auðvitað vonar maður alltaf að stuðningsmönnum fjölgi en ég gerði hins vegar aldrei ráð fyrir að þetta mál hefði þau áhrif beint. Vonandi sjá menn samt að okkur er alvara með þá stefnu sem við stöndum fyrir og við erum tilbúnir að berjast fyrir henni, líka þegar það er erfitt,“ segir Sigmundur.

Telur enn raunhæft að ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína

„Mér finnst málið hafa þróast heilmikið. Margt nýtt hefur komið fram, ekki bara í umræðum í þinginu, heldur á meðan á þeim umræðum hefur staðið hafa ýmsir verið að skrifa um þetta og þeir sem hafa verið að berjast í málinu utanþings hafa dregið fram margt nýtt sem við hljótum að taka tillit til þegar við leggjum mat á þetta,“ segir Sigmundur.

Hann telur enn raunhæft að ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína í málinu, þar sem „umtalsverður meirihluti stuðningsmanna allra ríkisstjórnarflokkanna hefur efasemdir eða er andvígur þessum þriðja orkupakka“.

Miðflokkurinn bætti hvert met á fætur öðru í löngum ræðum …
Miðflokkurinn bætti hvert met á fætur öðru í löngum ræðum og löngum þingfundum. Sigmundur telur erfiðið hafa borið ávöxt en hefði viljað sjá málinu komið alla leið aftur í sameiginlegu EES-nefndina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur hefði viljað sjá orkupakkanum frestað alveg fram á haust og helst að hann hefði verið sendur alla leið aftur til EES-nefndarinnar. „Hins vegar á þessi lausn að geta skilað sama árangri að miklu leyti, þar sem nú gefst þessi tími til að fara betur í gegnum þetta,“ segir hann.

Bindur vonir við að fallið kynni að vera frá gildistöku laga um ófrosið kjöt

Í samkomulaginu um þinglok felst, auk frestsins á afgreiðslu orkupakkans, ákvæði um seinkun á gildistöku laga sem heimila innflutning á ófrosnu kjöti, frá 1. nóvember 2019 til 1. janúar 2020.

Sigmundur fagnar seinkuninni. „Annars vegar er ég ánægður með gildistökufrestinn. Það munar heilmiklu um þessa mánuði, sem bætast við, því annars var þetta komið svo nálægt gildistökunni að það hefði ekki verið farið að reyna á hvort mótvægisaðgerðir svonefndar myndu virka,“ segir Sigmundur.

„Hins vegar stendur til í vinnu atvinnuveganefndar að bæta inn í nefndarálitið línum um að samráð við matvælaframleiðendur muni eiga sér stað í millitíðinni,“ segir Sigmundur. Hann bindur út frá því vonir við að það finnist ný lausn á málinu. „Það verður þá hugsanlega hægt að nýta tímann á nýju þingi til þess að falla frá gildistökunni, ef menn verða sáttir við nýju lausnina,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina