Samkomulag um þinglok í höfn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason á Alþingi í kvöld.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason á Alþingi í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þinglok ættu að nást í vikunni, sennilegast á fimmtudag eða föstudag. Það veltur þó um margt á hvernig umræðu um fjármálaáætlun, sem ekki er komin úr nefnd, vindur fram. Samkomulag hefur í annan stað náðst á milli ríkisstjórnarflokka og stjórnarandstöðu um hvaða málum er frestað og hver kláruð á þessu þingi.

Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins staðfestir að samkomulagið sé í höfn í samtali við mbl.is. Hann segir að drátturinn á þingstörfum hafi fyrst og fremst verið vegna breytinga á fjármálastefnu og -áætlun.

Síðsumarþing í ágúst verður haldið til að halda áfram umræðum um þriðja orkupakkann.

Þinglok verða ekki fyrr en breytt fjármálaáætlun er samþykkt, nokkuð sem ekki verður gert fyrr en á þinginu, þegar hún hefur verið afgreidd út úr fjárlaganefnd. Til stóð að ræða hana, og sennilega afgreiða hana inn á þing, á fundi í nefndinni klukkan sjö í dag en hún var tekin út af dagskránni. Samkvæmt heimildum mbl.is verður áætlunin rædd á fundi nefndarinnar í fyrramálið og í kjölfarið send til þingsins. Að líkindum verður hún afgreidd þar á fimmtudaginn

„Ég myndi halda að þinglok væru ekki raunhæf fyrr en á föstudaginn“ segir Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins í samtali við mbl.is. „Það veltur á umræðunni um fjármálaáætlunina. Hún þarf sinn tíma, enda grundvallarmál til fimm ára,“ segir Bergþór.

Bergþór þorir ekki að slá því föstu hvenær þingi ljúki en hann telur að forsetanum hugnist að klára þau á föstudaginn. „Í dag er þriðjudagur. Fjármálaáætlun er í fyrsta lagi komin á morgun en gæti komið á fimmtudaginn. Þessi dráttur á þingstörfum hefur fyrst og fremst verið vegna fjármálaáætlunar og breyttrar fjármálastefnu,“ segir Bergþór.

Orkupakki, ófrosið kjöt og mótvægisaðgerðir

Í þinglokasamningnum var samið um að fresta þingsályktuninni um þriðja orkupakkann fram á haust. Þá verður gildistöku laga um ófrosið kjöt frestað, eins og fram hefur komið að staðið hafi til.

Einnig hafi ákvæði um eftirlit með mótvægisaðgerðum verið inni í þinglokasamningnum. „Þetta eru þættir sem snúa að samráði markaðsaðila og stjórnvalda hvað varðar innleiðingu mótvægisaðgerða í kjötinu. Það er þannig að Kristján Þór Júlíusson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra mun upplýsa reglulega um hvernig innleiðingu mótvægisaðgerða vindur fram. Maður sér þá fyrir sér að með innkomu hagsmunaaðila verði styttri boðleiðir á milli stjórnvalda og aðila á markaði ef mótvægisaðgerðir eru ekki að ná sínu markmiði og menn geti brugðist hratt við,“ segir Bergþór.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins skýrir framvinduna á þennan veg:

mbl.is

Bloggað um fréttina