Segir ekki fót fyrir ásökunum um einræði

Nýr Herjólfur í innsiglingunni.
Nýr Herjólfur í innsiglingunni. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það er ekki fótur fyrir þessu,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, innt eftir viðbrögðum við bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks á bæjarráðsfundi vegna skipunar stjórnar í Herjólfi ohf. þar sem hún er sökuð um að stunda stjórnsýslu sem telst til „einræðis“.

Efnt var til aukafundar í bæjarráði á föstudaginn síðastliðinn þar sem eitt mál var á dagskrá, skipun stjórnar Herjólfs. Þetta var daginn áður en nýr Herjólfur sigldi til Vestmannaeyja.  

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins viðraði efasemdir um „lögmæti skipunar stjórnar Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. og annars vegar hvort bæjarstjóra hafi borið að skila inn umboði á aðalfund félagsins frá bæjarstjórn Vestmannaeyja og hins vegar að tillögur um stjórn, ráðstöfun hagnaðar og stjórnarlaun hafi ekki borist 5 dögum fyrir fund og ekki verið borin upp sérstök tillaga um að falla frá 5 daga reglunni.“ Þetta segir í fundargerðinni. 

Meirihluti bæjarráðs vísaði í álit Jóhanns Péturssonar lögmanns um lögmæti skipunar stjórnar Herjólfs ohf. en hann kom jafnframt á fundinn. Í áliti hans kemur fram að „bæjarstjóri hafi haft skýrt umboð f.h. Vestmannaeyjabæjar til að mæta á aðalfund Herjólfs ohf. og taka ákvarðanir f.h. hluthafans eins og samþykktir félagsins gera ráð fyrir, án þess að leita eftir sérstöku skriflegu umboði bæjarstjórnar.“ Í álitinu kemur ennfremur fram að 5 daga reglan eigi ekki við.  

Fulltrúi Sjálfstæðisflokks lagði fram tvær tillögur sem báðar voru felldar. Eftir það var lögð fram bókun í fimm liðum. Í henni segir meðal annars um skipun stjórnar að „bæjarstjóri geti þannig hagað skipan í stjórn, ákvörðun þóknunar stjórnarmanna og stefnu stjórnar eftir fullkomnum geðþótta. Slík stjórnsýsla telst einræði og ætti ekki að líðast í því lýðræðissamfélagi sem við viljum tilheyra.“

Íris furðar sig á bók­un­inni þrátt fyr­ir að bent hafi verið á það og það hafi komið skýrt fram í lögfræðiáliti að allar ráðstafanir  hafi verið i samræmi við samþykktir félagsins „Þetta kom skýrt fram í lögfræðiálitinu og á þessi málflutningur á ekki við nein rök að styðjast,“ seg­ir Íris.

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja.
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
mbl.is