Vilja úttekt á aðkomu að WOW

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segist vilja fá skýra mynd …
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segist vilja fá skýra mynd af aðkomu eftirlitsaðila að WOW air. mbl.is/Hari

Umhverfis- og samgöngunefnd leggur fyrir Alþingi í dag beiðni um að Ríkisendurskoðun geri úttekt á aðkomu Samgöngustofu og Isavia ohf. að starfsemi og rekstri WOW air hf. í aðdraganda gjaldþrots félagsins.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og aðal flutningsmaður tillögunnar, segir í samtali við mbl.is að markmiðið sé að fá „skýra mynd af því hvað þeir lögbundnu eftirlitsaðilar vissu og voru að gera í aðdraganda falls WOW air og hvort öllum reglum hafi verið fylgt. Bæði hvað varðar fjárveitingar eða einhverskonar ívilnun hjá Isavia og líka mat á flugrekstrarhæfi í tilfelli Samgöngustofu.“

Skoða hvort lögum hafi verið fylgt

Í beiðninni er meðal annars beðið um að greint verði frá því „hvernig Samgöngustofu hafi tekist að uppfylla hlutverk sitt samkvæmt lögum um loftferðir og reglugerð um sameiginlegar reglur um flugrekstur og flugþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins.“ Jafnframt verði fjallað um það hvort verkferlum innan stofnunarinnar hafi verið fylgt.

„Þá verði aðkoma Isavia sérstaklega skoðuð með tilliti til hagkvæmni, meðferðar og nýtingar ríkisfjár sem og þess hvort farið hafi verið eftir samþykktum og verkferlum félagsins í viðskiptum þess við WOW air hf., m.a. út frá reglum samkeppnislaga og ríkisaðstoðarreglna,“ að því er segir í beiðninni.

Er blaðamaður spyr hvort ekki hafi verið ástæða til þess að skoða hlut Samkeppniseftirlitsins í ljósi þess að vísað er til reglna samkeppnislaga, svarar Helga Vala svo ekki vera á þessum tímapunkti. „Það getur vel verið tilefni til þess síðar.“

Vildi strax úttekt

„Við fórum um leið að kalla inn gesti þegar ástandið [gjaldþrot WOW] varð ljóst og við svörin þá varð ljóst að við þyrftum að fara í einhverja skoðun. Ég óskaði strax eftir því inni í nefndinni um að það yrðu farið í óháða stjórnsýsluúttekt á þessu,“ segir Helga Vala og bætir við að samstaða hafi verið um beiðnina í nefndinni.

Spurð hvort draga má þá ályktun að nefndin telji vera vafa um hvort lögum hafi verið fylgt í ljósi orðalags beiðninnar, segir Helga Vala að það megi draga þá ályktun að nefndin telur fulla ástæðu til þess að skoða málið. Að öðru leyti geti hún ekki greint frá afstöðu annarra nefndarmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert