Vill að öryrkjar fái vernd

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, segist hafa áhyggjur af því …
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, segist hafa áhyggjur af því að dregið sé í land með fyrirheit um aukin framlög til málaflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég hef gríðarlegar áhyggjur af þessari fjármálaáætlun stjórnvalda og hef sent þeim opin bréf, tölvupósta og skilaboð um það að stíga ekki það vonda skref að draga úr því fjármagni sem átti að fara í þennan fjársvelta málaflokk,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, í samtali við mbl.is um tillögu ríkisstjórnarinnar að brettri fjármálaáætlun fyrir árin 2020 til 2024.

Í tillögunni er gert ráð fyrir því að framlag til öryrkja og málefna fatlaðs fólks verði 7,9 milljörðum lægri á tímabilinu en í fyrri áætlun.

„Ég hef óskað eftir því að þau endurskoða sínar hugmyndir um að skerða þær upphæðir sem áætlaðar voru inn í málaflokkinn,“ segir Þuríður. „Okkar hópur – öryrkjar og fatlað fólk – hefur í langa tíð þurft að taka hvern skellinn á fætur öðrum og við höfum ekki fengið leiðréttingar á kjörum.“

„Það er grafalvarlegt ef ríkisstjórnin ætlar að næra fátækt en ekki sporna við henni,“ segir formaðurinn og bendir á að um sé að ræða lægri upphæði en atvinnuleysisbætur. „Atvinnuleysisbætur eru 280 þúsund á meðan örorkulífeyrir er 247 þúsund, þetta hefur bara ekki gerst áður.“

Hún segist vona að fjármálaáætlun taki breytingum við meðferð þingsins. „Ég bind virkilega vonir við það og biðla til stjórnmálamanna að taka höndum saman og verja þennan hóp, […] þannig að þessi hópur sé ekki eina ferðina enn að taka höggið á sig þegar á að spara.“

mbl.is