13 hross drepist og fleiri gætu bæst við

Alls hafa greinst 44 hross með nýjan taugasjúkdóm á hrossaræktarbúi …
Alls hafa greinst 44 hross með nýjan taugasjúkdóm á hrossaræktarbúi á Norðurlandi vestra. mbl.is/Árni Sæberg

Alls hafa 44 hross, á aldrinum eins til 8 vetra, sýnt einkenni taugasjúkdóms sem greindur var í fyrsta skipti hérlendis í síðasta mánuði. Þar af hafa 12 hross verið felld og eitt fundist dautt. Sjúkdómurinn kom upp á hrossaræktarbúi á Norðurlandi vestra í hrossum sem öll höfðu verið á útigangi og fengið rúlluhey af sama slætti af sama túni.

Krufning og meinafræðilegar rannsóknir á Tilraunastöðinni á Keldum staðfesti klíníska greiningu sjúkdómsins. Þetta er í fyrsta skipti sem áunninn fjöltaugakvilli (aquired polyneuropaty), greinist hér á landi en hann er vel þekktur í Skandinavíu.

„Sjúkdómurinn er ekki smitandi og engin hætta á að hann berist frá bænum eða í hross sem koma á bæinn nú eftir að hætt er að gefa umrætt hey. Það er engin sérstök hætta tengd bæn-um og venjulega kemur þetta ekki upp tvisvar á sama bæ,“ segir Sigríður Björnsdóttir dýralæknir hrossasjúkdóma hjá MAST. Eins og staðan er núna hefur reynst nauðsynlegt að fella 30% hrossanna vegna alvarlegra veikinda en hin 70% virðast á hægum batavegi. Ekki er þó útilokað að fella þurfi fleiri hross en það eigi eftir að koma í ljós. Þessi útkoma er á pari við það sem þekkist í Skandinavíu þegar sjúkdómurinn kemur upp í stórri hjörð.

Sigríður Björnsdóttir, dýra­lækn­ir hrossa­sjúk­dóma hjá MAST.
Sigríður Björnsdóttir, dýra­lækn­ir hrossa­sjúk­dóma hjá MAST. mbl/Arnþór Birkisson

Það sem tengir öll tilfellin saman er rúlluhey sem hrossunum var gefið á útigangi fyrr í vetur og fram á vor. Strax og bera fór á veikindum var hætt að fóðra hrossin á því. „Þetta er gott hey samkvæmt öllum venjulegum mælikvörðum en ber samt sem áður með sér eitthvað sem út-leysir sjúkdóminn. Það er ekki vitað hvað það er þrátt fyrir miklar rannsóknir. Leitað hefur verið að orsakavaldi án þess að hann hafi fundist,“ segir Sigríður. Hún tekur fram að áfram verði reynt að finna út úr því í samvinnu við kollega í Noregi og Svíþjóð.

„Því miður hef ég engin ráð til að varast það“

Í því samhengi nefnir hún að norskur kollegi hennar mætti á hrossaræktarbúið til að skoða hrossin frekar sem og aðstæðurnar. Í þeirri úttekt kom þó ekkert fram sem gat skýrt ástæður þess að sjúkdómurinn kom upp núna á þessum bæ eða á Íslandi yfir höfuð. Kannski er hitt merkilegra að hann hafi ekki greinst hér áður í ljósi þess að hér hafa svo gott sem öll hross verið fóðruð á rúlluheyi undanfarna þrjá áratugi. Heimsóknin var afar gagnleg, bæði að fá samanburðinn við sjúkdómsmyndina eins og hún hefur birst í Noregi og nánari innsýn í stöðu þekkingar, segir Sigríður.

Flest hross eru nú komin á beit í sumarhaga og telur Sigríður ekki líklegt að sambærileg tilvik eigi eftir að koma upp á beitartímanum.

„Framtíðin verður að leiða í ljós hvort þetta stingur sér niður á fleiri bæjum næsta vetur. Því miður hef ég engin ráð til að varast það. Við hvetjum bara fólk að vera vakandi fyrir einkennum taugasjúkdómsins sem lýsa sér m.a. með því að hrossin missa mátt í afturfótum og detta niður á kjúkurnar,“ segir Sigríður.

Hross eru komin á sumarhagann.
Hross eru komin á sumarhagann. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is