Allt gert fyrir Litlu-Grá og Litlu-Hvít

Áhöfn og farþegar í Herjólfi bíða nú þolinmóðir eftir flutningabílunum tveimur sem flytja mjaldrasysturnar sem komu til landsins í dag eftir langt og strangt flug frá Sjanghæ.

Eftir stutt öryggisstopp á Selfossi liggur leið bílanna nú í lögreglufylgd í Landeyjahöfn þar sem Herjólfur bíður eftir systrunum og föruneyti þeirra. Myndskeið af viðkomu mjaldranna á Selfossi má sjá hér að ofan.

Herjólfur átti að leggja af stað til Vestmannaeyja kortér fyrir níu en ferðinni hefur verið frestað þar til mjaldrarnir verða komnir um borð. Ekki hafa fengist upplýsingar um hversu margir farþegar eru um borð en svo virðist sem allir séu tilbúnir að bíða þolinmóðir eftir heiðursfarþegunum Litlu-Grá og Litlu-Hvít, enda ekki á hverjum degi sem tækifæri gefst til að ferðast með mjöldrum.

Flutningabílarnir aka beint um borð í Herjólf með mjaldrana innanborðs.
Flutningabílarnir aka beint um borð í Herjólf með mjaldrana innanborðs. Ljósmynd/Aðsend

Samkvæmt upplýsingum frá Sigurjóni Inga Sigurðssyni, verkefnastjóra sérverkefnadeildar hjá TVG Zimsen, er flutningabílunum ekið beint um borð í Herjólf. Ef allt gengur samkvæmt áætlun eru mjaldrarnir væntanlegir til Vestmannaeyja á ellefta tímanum í kvöld. 

Uppfært klukkan 21:46: Flutningabílarnir eru í þann mund að aka um borð í Herjólf sem mun leggja af stað von bráðar.  

Flutningabílarnir tveir tóku á móti mjöldrunum í Keflavík og hefur …
Flutningabílarnir tveir tóku á móti mjöldrunum í Keflavík og hefur ferðin austur í Landeyjahöfn gengið eins og í sögu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is