Bíll yfirgefinn í Helluvatni

Bíllinn var á vatnsverndarsvæði og því var heilbrigðiseftirlitið kallað til.
Bíllinn var á vatnsverndarsvæði og því var heilbrigðiseftirlitið kallað til. mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk í morgun tilkynningu um bíl í Helluvatni, við hlið Elliðavatns. Þegar lögregla kom á vettvang reyndist bíllinn ekki allur úti í vatninu, heldur við flæðarmálið með nefið úti í vatninu. Enginn var í bílnum.

Að sögn Valgarðs Valgarðssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, er ekki vitað hvernig bíllinn endaði við vatnið. „Bíllinn var hífður upp úr vatninu og fjarlægður. Síðan höfum við upp á eigandanum,“ segir hann, en bílnúmer voru á bílnum. 

„Líklega hefur hann verið þarna frá því í morgun eða í nótt. Fólk tilkynnir alls konar hluti hingað og mér finnst ólíklegt að hann hafi verið þarna lengi án þess að við höfum fengið ábendingu um það,“ segir Valgarður.

Heilbrigðiseftirlitið kallað til

Starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins voru einnig kallaðir til í morgun. „Af því þetta er vatnsverndarsvæði, þá er þetta mjög viðkvæmt,“ segir Valgarður. „Ef það verða óhöpp eða slys á vatnsverndarsvæðum meta þeir hvort gera þurfi viðeigandi ráðstafanir. Hvort það þurfi t.d. að fá slökkviliðið til að þrífa upp olíu eða annað,“ segir Valgarður.

Ekki er algengt að lögreglan fái tilkynningar um yfirgefna bíla í borgarlandinu. „Þetta er ekki mikið, en það koma upp svona tilvik af og til,“ segir hann.

mbl.is