Birti myndband af utanvegaakstrinum

Í myndbandinu sést hvernig jeppinn sekkur í leirinn skammt frá …
Í myndbandinu sést hvernig jeppinn sekkur í leirinn skammt frá jarðböðunum við Mývatn. Skjáskot/AlexanderTikhomirovDiary

Rússinn Alexander Tikhomirov sem olli talsverðu tjóni með utanvegaakstri skammt frá jarðböðunum við Mývatn í upphafi mánaðarins, hefur birt myndband frá Íslandsför sinni. Í því má meðal annars má finna upptökur af því þegar hann ók um svæðið og festi jeppa sinn í leir. Jeppinn sem var af gerðinni Toyota Land Cruiser skildi eftir sig mikil för og draga þurfti bílinn upp úr leirnum.

Tikhomirov sem er fræg samfélagsmiðlastjarna þurfti að greiða 450 þúsund krónur í sekt vegna skemmda sem hann olli með utanvegaakstrinum, en um var að ræða eina hæstu sekt sem greidd hefur verið fyrir brot af þessum toga hér á landi. Í kjölfarið var fjallað um það í fjölmiðlum hvaða tilgangi slíkar sektir þjóni og hvort markmiðinu að baki þeim yrði náð með þeim.

Gagnrýndi meðferð máls síns

Frá því málið kom upp hefur Tikhomirov talað opinskátt um atvikið á miðlum sínum og gagnrýnt þá meðferð sem málið fékk og viðmót heimamanna eftir að hann var staðinn að akstrinum.

Myndbandið úr Íslandsförinni má sjá hér að neðan og saga hans af utanvegaakstrinum hefst þegar 11 mínútur og 46 sekúndur eru liðnar af myndbandinu.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert