Bítast á um tillögur fjárlaganefndar

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi.
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingar og nefndarmaður í fjárlaganefnd, segir í færslu á Facebook-síðu sinni að dökk tíðindi séu í breytingartillögum meirihluta nefndarinnar við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Hann segir að gagnrýni og vinna minnihlutans og Öryrkjabandalagsins hafi aftur á móti skilað heilmiklum árangri og haft áhrif á breytingartillögurnar. 

„Í stað þess að skera niður frá því sem hafði verið tilkynnt í mars sl. um 43 milljarða kr. á næstu 5 árum („án útgjalda utan ramma“) verður niðurskurðurinn 28 milljarðar kr. samanlagt næstu 5 árin,“ segir í færslu Ágústs Ólafs. Mismunurinn sé fimmtán milljörðum minni niðurskurður sem öryrkjar, sjúkahús, framhaldsskólar, löggæsla, húsnæðisstuðningur ungs fólks og fleiri stoðir velferðarkerfisins njóti góðs af á erfiðum tímum.

Slæm tíðindi, þrátt fyrir minni lækkun

Ágúst Ólafur telur þó að dökk tíðindi séu í breytingartillögum VG, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þannig rekur hann að 4,5 milljarða króna lækkun sé á framlögum til öryrkja næstu fimm ár. Umhverfismál fái eins milljarðs króna lækkun og það séu skrýtin skilaboð á tímum hamfarahlýnunar.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingar.
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingar. mbl.is/​Hari

Þá segir hann að framhaldsskólar fái 1,2 milljarða króna niðurskurð og heildarfjárhæð til þeirra standi í stað næstu fimm ár. Framlög til sjúkrahúsa lækki um tvo milljarða og framlög til heilsugæslu og sérfræðiaðstoðar lækki um 1,5 milljarða króna.

Þá nefnir Ágúst Ólafur að meirihluti fjárlaganefndar vilji auka niðurskurð í flokki nýsköpunar og rannsókna, frá því sem breytingartillögur ríkisstjórnarinnar gerði ráð fyrir og verði lækkun 3,2 milljarðar á næstu fimm árum.

„Þetta er enginn niðurskurður“

Í frétt á vef fjármálaráðuneytisins segir að megininntak tillagna til breytinga á fjármálaáætlun sem ríkisstjórnin lagði til við fjárlaganefnd væri að dregið væri úr áformuðum afgangi á heildarafkomu hins opinbera í samræmi við breyttar efnahagshorfur. Samhliða væri lögð áhersla á að draga úr vexti útgjalda og tryggja að afkoma hins opinbera verði hallalaus á komandi árum. 

„Það er auðvitað enginn niðurskurður fyrir það fyrsta,“ segir Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokks og formaður fjárlaganefndar, inntur eftir viðbrögðum við orðum Ágústs Ólafs. „Útgjöld eru að aukast til allra málaflokka. Við erum með áætlun um að útgjöld aukist svo og svo mikið. Í ljósi efnahagsaðstæðna er dregið svolítið úr útgjaldavextinum og hægt á skuldalækkunarferlinu. Afkoman er tekin niður, en öllu er haldið óbreyttu inn á 2020,“ segir hann. „Svo má ekki gleyma því að fjármálaáætlun er endurskoðuð á hverju ári,“ segir Willum Þór.

Leggi fjármuni í forvirkar aðgerðir

Willum Þór nefnir að tilfærslukerfin stóru séu heilbrigðis- og velferðarmálin. Aldraðir og öryrkjar séu viðkvæmir hópar, en bendir á að aðeins sé hægt á útgjaldavexti um eitt prósent. „Við erum að fjárfesta í alls konar forvirkum aðgerðum fyrir þá sem þær geta nýtt sér, t.d. unga karlmenn sem einhverrra hluta vegna detta út af vinnumarkaði og konur með stoðkerfisvandamál,“ segir hann og nefnir að einnig séu lagðir fjármunir í VIRK, starfsendurhæfingarúrræði. 

„Þetta verður að skila ef við ætlum að vera sjálfbær í framtíðinni. Við horfum til þess að þetta geti skilað 1% hægingu á útgjaldavexti og það er ekki niðurskurður,“ segir Willum Þór.

Hann nefnir að í samhengi við fjármálastefnu hafi verið horft til þess í nefndinni að halda jákvæðri afkomu á síðari hluta gildistímabils fjármálaætlunar. „Það birtist í því að það þyrfti að horfa til þess að endurmat og forvirkar aðgerðir myndu skila árangri í að draga úr kerfisbundnum útgjaldavexti. Það er auðvitað viðvarandi verkefni, en síðan endurskoðum við áætlun á hverju ári,“ segir Willum Þór

Útgjöld aukist ekki út í hið óendanlega

Willum Þór telur Ágúst Ólaf fara með rangt mál í færslu sinni. Hann segir að þar sé t.d. ekki tekið með í reikninginn að framhaldsskóli hafi verið styttur um eitt ár. „Það er búið að stytta framhaldsskólann um einn fjórða og nánast sama fjármagn fer í þann málaflokk. Þetta er innan við eitt prósent, hann tekur þetta allt úr samhengi við veruleikann,“ segir Willum Þór. Þá nefnir hann að útgjöld til umhverfismála séu aukin.

„Það er verið að auka útgjöld til umhverfismála. Það blasir við allan gildistíma áætlunarinnar og það er búið að auka verulega í það síðan árið 2018. Framlög til umhverfismála aukast um 24% frá árinu 2018 til 2024. Það hægir aðeins á vextinum á seinni hluta áætlunarinnar, það er rétt, en það er verið að auka útgjöldin. Það er rangnefni að kalla þetta niðurskurð. Þetta er rakalaus og alvarlegur málflutningur,“ segir hann.

„Þegar við horfum til fjármála ríkisins í heild og það er kveðið á um það í lögum að ríkisfjármál eigi að vera sjálfbær, þá er það ekki sjálfstætt markmið að útgjöld aukist út í hið óendanlega,“ segir Willum Þór.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert