Dæmdur í fangelsi eftir „lögguleik“

Lögreglustöðin við Hlemm.
Lögreglustöðin við Hlemm. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlmaður á fertugsaldri var í gær dæmdur í 15 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot gegn vald­stjórn­inni, ólög­mæta nauðung og grip­deild. Hann þótt­ist vera lög­reglumaður og fram­kvæmdi leit á starfs­mönn­um hót­els í miðbæ Reykja­vík­ur und­ir því yf­ir­skini.

Auk þess var maðurinn sakfelldur fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökurétti ævilangt. Maðurinn hefur áður hlotið fimm dóma og rauf skilorð með brotunum sem hann var dæmdur fyrir í gær.

At­vikið átti sér stað í mars fyr­ir þrem­ur árum en maður­inn kynnti sig sem lög­reglu­mann fyr­ir starfs­mönn­um hótelsins. Maðurinn sýndi starfsmönnunum skilríki með lögreglustjörnu og númeri og framkvæmdi á þeim leit með því að þreifa á mönnunum. 

Að því loknu tilkynnti maðurinn að einn hótelstarfsmannanna væri handtekinn og gekk með starfsmanninn, gegn vilja hans, að lögreglustöðinni við Hlemm. Þegar þangað var komið sáu lögregluþjónar að skírteini lögregluskírteini mannsins voru fölsuð og var hann handtekinn á staðnum.

Óttaðist um líf sitt

Fram kemur í ákæru héraðssaksóknara að maðurinn hafi augljóslega verið í annarlegu ástandi. Hann greindi lögreglu frá því að hann hefði verið í lögregluskólanum og tvö ár í danska hernum. Við öryggisleit á honum fannst hnífur og þá afhenti hann einnig tóbak sem hann tók af einum hótelstarfsmannanna.

Hótelstarfsmaðurinn sem hinn dæmdi dró með sér á lögreglustöðina sagði að sér hefði brugðið vegna atviksins. Maðurinn hafi tekið um hægri úlnlið hans, dregið af stað og reynt að kasta honum fyrir bíl. Starfsmaðurinn náði að slíta sig lausan en þá fór hinn dæmdi í hægri vasann og spurði hvort hann ætlaði að veita mótspyrnu.

Starfsmaðurinn telur að frelsissviptingin hafi varað í 46-60 mínútur. Hann hafi verið skelfingu lostinn og óttast að maðurinn ætlaði að drepa sig.

Fram kemur í niðurstöðu dómsins að ekkert hafi komið fram sem gæti réttlætt aðgerðir hins dæmda og því ekki fallist á að honum hafi verið heimil borgaraleg handtaka, eins og hann byggði á. Auk 15 mánaða fangelsisvistar er hinum dæmda gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, 657.200 krónur, og 140.512 krónur í annan sakarkostnað.

mbl.is