Dýraspítali á Rauðalæk

Sandra Líf Þórðardóttir dýralæknir, Andrea Rummele dýralæknanemi, Katrin Wagner dýralæknir …
Sandra Líf Þórðardóttir dýralæknir, Andrea Rummele dýralæknanemi, Katrin Wagner dýralæknir og Isabell Henss dýralæknanemi. mbl.is/Helgi Bjarnason

Dýralæknarnir Sandhólaferju ehf. hafa flutt dýraspítalann og alla þjónustuna að Rauðalæk. Þar eru þeir að koma sér fyrir í húsnæði sem áður hýsti Kaupfélag Rangæinga.

„Við erum vel staðsett hér, við þjóðveginn. Við vorum aðallega að horfa til þess,“ segir Jakobína Valsdóttir sem starfar við dýralæknaþjónustuna með manni sínum, Guðmari Aubertssyni dýralækni. Þau eru með tvo dýralækna í vinnu um þessar mundir.

Húsnæðið er rúmgott. Þar eru þau að koma fyrir dýraspítala með skoðanastofum fyrir gæludýr og stór dýr, aðgerðastofum, rannsóknastofu og apóteki auk afgreiðslu. Þá eru þau að koma sér upp verslun með ýmsar vörur fyrir dýrin.

Rauðilækur er smár þéttbýliskjarni við Suðurlandsveg, um fimm kílómetra vestan við Hellu. Í húsnæðinu sem dýralæknirinn keypti hefur verið rekið þvottahús síðustu ár en áður var þar útibú Kaupfélags Rangæinga á Hvolsvelli.

Eftir að Guðmar og Jakobína keyptu húsnæðið hafa þau endurnýjað það að utan jafnt sem innan og er þeirri vinnu raunar ekki að fullu lokið. Jakobína reiknar með formlegri opnun í haust, þegar allt verður tilbúið.

Vorið er mikill annatími hjá dýralæknum. Allir þrír dýralæknarnir voru að vinna úti á mörkinni þegar blaðamaður kom við. „Já, það er mikið að gera, eins og alltaf. Ekki aðeins við hesta, nautgripi og kindur heldur einnig hunda, ketti og önnur gæludýr,“ segir Jakobína sem var ein á skrifstofunni. helgi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert