Gróðursetja 8.900 tré

Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðs, og Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, handsala …
Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðs, og Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, handsala samning um gróðursetningu á 8.900 trjám. Ljósmynd/Aðsend

Hafnarfjarðarbær undirritaði í dag samning við Kolvið um kolefnisjöfnun á rekstri Hafnarfjarðarbæjar og nær verkefnið til allra stofnana sveitarfélagsins sem eru um 70 talsins.

Í upphafi árs samdi Hafnarfjarðarbær við fyrirtækið Klappir-Grænar lausnir hf. um uppsetningu á umhverfisstjórnunarhugbúnaði sem safnar saman í kolefnisbókhald mikilvægum upplýsingum úr rekstrinum m.a. um heildarnotkun á heitu vatni, rafmagni og olíu.  Þessir þættir vega hvað þyngst í kolefnisfótspori sveitarfélagsins ásamt sorphirðu, að því er bærinn greinir frá í tilkynningu.

Fram kemur, að tölur fyrir rekstrarárið 2018 liggi nú fyrir og snúi undirritaður samningur að kolefnisjöfnun ársins 2018 en fyrir liggi að kolefnisjafna rekstur Hafnarfjarðarbæjar hér eftir.

Þá segir, að samkvæmt kolefnisbókhaldi fyrir Hafnarfjarðarbæ 2018 hafi kolefnisfótspor af rekstri bæjarins verið um 890 tonn af koltvísýringi og samsvarar kolefnisjöfnun gróðursetningu á 8.900 trjám.

Nánar á vef Hafnarfjarðarbæjar. 

mbl.is