Hættuleg möl fjarlægð af veginum

Töluverð möl hafði safnast fyrir á Vífilsstaðavegi þegar ábending barst …
Töluverð möl hafði safnast fyrir á Vífilsstaðavegi þegar ábending barst á þjóðhátíðardaginn. mbl.is/Árni Sæberg

Vegagerðin hefur brugðist við ábendingum um möl á veginum við Vífilsstaðavatn sem fjallað var um á mbl.is 17. júní sl., en Árni Friðleifsson, hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði hana geta verið hættulega hjólreiðafólki og bifhjólamönnum. Mikið væri um hjólreiðar á svæðinu og lögreglunni hefði borist ábending um þetta. Sagði hann að þetta gæti tengst viðgerðum á veginum.

„Ég veit ekki annað en að þetta sé í lagi núna,“ segir Jóhann Bjarni Skúlason, yfirverkstjóri við þjónustustöð Vegagerðarinnar í Hafnarfirði á suðursvæði, en Vegagerðin er veghaldari Vífilsstaðavegar. Vegurinn var sópaður aðfaranótt föstudags en á mánudag barst ný kvörtun vegna malar á veginum. Vegagerðin brást strax við því og sópaði veginn.

Líklega umferðin sem veldur

Jóhann Bjarni segir að annað valdi því að mölin berist inn á veginn en að Vegagerðin hafi verið þar að störfum. „Við höfum ekki verið að gera neitt þarna, það er líklega umferðin sem dregur mölina þarna inn á veginn. Líklega hafa einhverjir bílar farið út á öxlina og þeytt mölinni inn á veginn,“ segir hann. Þá hafi nýlega staðið yfir vinna við uppsetningu myndavéla og masturs við veginn sem gæti átt þátt í því að mölin barst inn á veginn. 

Að sögn Jóhanns Bjarna fær Vegagerðin annað slagið ábendingar sem þessar um vegi þar sem enginn kantur er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert