Magnús fær Tesluna ekki aftur

Magnús Ólafur Garðarsson fyrrverandi forstjóri United Silicon.
Magnús Ólafur Garðarsson fyrrverandi forstjóri United Silicon. Ljósmynd/Aðsend

Hæstiréttur hafnaði því í dag að mál Magnúsar Ólafs Garðarssonar, fyrrverandi for­stjóra United Silicon, vegna hraðaksturs hans á Teslu-bifreið á Reykjanesbrautinni yrði tekið fyrir. Magnús var dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi í Landsrétti fyrir hraðakstur og að hafa valdið slysi.

Auk þess gerði Landsréttur Teslu Magnúsar upptæka.

Magnús sótti um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar 22. maí en dómur Landsréttar féll 5. apríl. 

Fram kemur í ákvörðun Hæstaréttar að Magnús hafi verið sakfelldur í Landsrétti og héraði fyrir brot gegn umferðarlögum og fyrir að hafa valdið árekstri við aðra bifreið með þeim afleiðingum að ökumaður hennar varð fyrir líkamstjóni.

Magnús taldi dóm Landsréttar rangan. Hann vísar meðal annars til þess að niðurstaða hafi verið reist á gögnum úr ökurita bifreiðarinnar sem aflað hafi verið frá framleiðanda hennar með ólöglegum hætti, auk þess sem starfsmaður framleiðandans hafi neitað að gefa skýrslu fyrir héraðsdómi.

Hæstiréttur fellst ekki á að málið hafi það mikla almenna þýðingu að nauðsynlegt sé að dómurinn dæmi í því, né að næg rök sé fyrir því að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið ábótavant og hafnar því að taka málið fyrir.

Magnús var sakfelldur fyrir að hafa ekið Telslu-bifreið sinni á allt að tvöföldum hámarkshraða eftir Reykjanesbrautinni 20. desember 2016. Hann hafi rásað á milli akreina og fjölda ökumanna blöskrað aksturslagið. Fór það svo að hann ók aftan á annan bíl.

Magnús sagðist fyrir héraðsdómi hafa vandað sig við aksturinn og neitaði því að hafa ekið óvarlega. Hann hafi ætlað fram úr hinni bif­reiðinni en þá hnerrað skyndi­lega með þeim af­leiðing­um að hann hafi misst stjórn á bif­reið sinni.

Við þetta hafi Tesla-bif­reið hans lent með hægra fram­hornið á vinstra aft­ur­hornið á Toyota-bif­reið. Viður­kenndi Magnús að hafa ekið of hratt miðað við aðstæður en vildi meina að hann hefði ekki verið á 183 kíló­metra hraða á klukku­stund eins og fram kom í ákæru. Taldi hann að það gæti ekki staðist að hann hefði ekið á svo mikl­um hraða.

mbl.is