Mjaldrarnir væntanlegir klukkan 14

Litla-Hvít og Litla-Grá.
Litla-Hvít og Litla-Grá. Ljósmynd/Sea Life Trust

Mjaldrarnir Litla-Hvít og Litla-Grá eru lagðir af stað til Íslands. Cargolux-flutningavél sem flytur mjaldrana fór í loftið frá flugvellinum í Sjanghaí um miðja nótt að íslenskum tíma. Áætlað er að flugvélin muni lenda á Keflavíkurflugvelli um klukkan 14 í dag eða rúmlega fimm klukkustundum síðar en áætlað var. Ekki er vitað á þessari stundu af hverju seinkunin varð.

„Við erum tilbúin og spennt að taka á móti mjöldrunum. Við munum reyna að keyra þetta áfram eins hratt og vel og hægt er. Það verður mikil vinna þegar þeir lenda á Keflavíkurflugvelli. Mjaldrarnir ferðast í sérútbúnum tönkum sem þeir fóru í í dýragarðinum í Sjanghaí. Þeir eru fluttir úr flugvélinni í tvo sérútbúna vagna á Keflavíkurflugvelli sem munu flytja þá til Landeyjahafnar. Hvor mjaldur fyrir sig er um eitt tonn að þyngd. Heildarþyngd á hvorum tanki er um 9 tonn. Það verður að skipta um vatn í báðum tönkunum þar sem um eitt til tvö tonn af vatni eru tekin úr þeim og nýtt vatn sett í þá. Mjaldrarnir eru í sóttkví og bílarnir fara síðan í sóttkví líka um leið og þeir fara inn í vagnanna,“ segir Sigurjón Ingi Sigurðsson, verkefnastjóri sérverkefnadeildar TVG-Zimsen sem sér um flutninginn á mjöldrunum á Íslandi.

TVG-Zimsen sér um flutninginn á mjöldrunum á Íslandi.
TVG-Zimsen sér um flutninginn á mjöldrunum á Íslandi.

„Við ökum með mjaldrana Suðurstrandarveginn. Við erum með fjögur öryggisstopp á leiðinni þar sem verður stoppað og farið inn og kíkt á mjaldrana. Fyrsta stopp er í Grindavík, annað stopp á Selfossi og við erum síðan með tvo aðra staði sem verður stoppað á ef á þarf að halda á leið til Landeyjahafnar,“ segir Sigurjón í tilkynningu.

Mjaldrarnir verða síðan fluttir um borð í Herjólf sem siglir með þá til Vestmannaeyja. Vel verðum fylgst með mjöldrunum um borð í vögnunum.

„Þjálfarar mjaldranna geta verið í talstöðvarsambandi við þá í vögnunum. Það er sérstakt talstöðva- og myndavélakerfi í tönkunum og þjálfararnir sitja í trukkunum hjá bílstjórunum og fylgjast vel með mjöldrunum. Þetta verður krefjandi en mjög skemmtilegt verkefni og við hlökkum til að taka á móti þeim,“ segir Sigurjón enn fremur í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert