Sameiginleg samþykkt í fyrsta sinn

Á Norðurlandi Vestra er nú í fyrsta sinn í gildi …
Á Norðurlandi Vestra er nú í fyrsta sinn í gildi sameiginleg lögreglusamþykkt fyrir öll sveitarfélög umdæmisins. Ljósmynd/Lögreglan

Nýverið tók ný lögreglusamþykkt gildi fyrir sveitarfélög í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra. Er samþykktin sú fyrsta í umdæminu sem nær yfir öll sveitarfélög á þessu svæði að því er fram kemur í frétt á vef Skagafjarðar, en þar segir einnig að fyrir gildistöku samþykktarinnar hafi ekki verið gildar lögreglusamþykktir í öllum sveitarfélögum á Norðurlandi vestra.

Gunnar Örn Jónsson, lögreglustjóri umdæmisins, segir að með samþykktinni sé stigið áþekkt skref og tekið var í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi árið 2017, eftir umdæmabreytingar hjá lögreglunni á landsvísu. 

Þá hefur sama leið verið farin í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Fyrirkomulagið byggir á sammæli sveitarfélaga viðkomandi umdæma, þ.e. að öll sveitarfélögin séu samþykk fyrirkomulaginu. Sveitarstjórnir á Norðurlandi Vestra fengu lögreglusamþykktina þannig tvisvar til umsagnar áður en hún var send ráðherra til staðfestingar.

Höfðu Suðurland sem fyrirmynd

„Fyrst og fremst var horft til lögreglusamþykktar á Suðurlandi. Hún er mjög svipuð að gerð,“ segir Gunnar Örn, en nýja sameiginlega samþykktin byggir á eldri samþykktum að meira og minna leyti. „Eftir þessa umdæmabreytingu tel ég þetta vera eðlilegasta framgangsmátann,“ segir hann.

Þrátt fyrir að lítið sé um nýmæli í lögreglusamþykktinni nýju eru þó einhverjar breytingar. Sem dæmi má nefna að í 12. gr. er kveðið á um að við alfaraleið í byggð sé óheimilt að gista í tjöldum, húsbílum, hjólhýsum, fellihýsum, tjaldvögnum og öðrum sambærilegum búnaði, utan skipulagðra tjaldsvæða.

Á vef Skagafjarðar segir að komið verði upp merkingum við helstu ferðamannastaði þar sem ferðamönnum verði leiðbeint um nærliggjandi tjaldsvæði. 

mbl.is