Skoða afnám skerðinga lífeyris

Velferðarnefnd Alþingis vill láta skoða áhrif afnáms skerðingar ellilífeyris vegna …
Velferðarnefnd Alþingis vill láta skoða áhrif afnáms skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Velferðarnefnd Alþingis hefur lagt fram þingsályktunartillögu sem biður um að lagt verði mat á kostnaði við að afnema tekjuskerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna. Feli slíkt ekki í sér útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð er hvatt til þess að lagt verði frumvarp fyrir Alþingi um afnám skerðinganna.

Tillagan felur félags- og barnamálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, að láta gera úttekt sem framkvæmd er „af óháðum aðilum í samstarfi við félagsmálaráðuneytið.“

„Við mat á fjárhagslegum áhrifum skuli meta áhrifin á bæði útgjaldahlið og tekjuhlið ríkissjóðs. Leiði úttektin í ljós að afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna feli ekki í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð leggi félags- og barnamálaráðherra fyrir 1. mars 2020 fram frumvarp sem feli í sér afnám skerðinga ellilífeyris almannatrygginga vegna tekna af atvinnu.“

Ef niðurstöðurnar benda til þess að slíkt afnám skerðinga leiði til útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð verður „málinu vísað til starfshóps um kjör aldraðra þar sem rætt verði um áhrif tekjuskerðinga almennt og hvaða leiðir séu í boði í þeim efnum.“

Þvert á flokka

„Mikilvægt er talið að réttindakerfi almannatrygginga sé þannig uppbyggt að það hvetji til atvinnuþátttöku einstaklinga sem byggja framfærslu sína að hluta eða öllu leyti á stuðningi opinberra aðila. Jafnframt er mikilvægt að í bótakerfinu séu innbyggðir hvatar sem stuðli að aukinni atvinnuþátttöku fólks sem fær greiðslur frá almannatryggingum,“ segir í greinargerð tillögunar.

Velferðarnefnd í heild er skráð fyrir ályktuninni og má því telja líklegt að mikil samstaða sé um málið á Alþingi, þvert á flokka.


 

mbl.is